Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   þri 14. júlí 2015 14:15
Arnar Daði Arnarsson
Þjálfari umferða 1-11: Skora á alla að fá sér svona húfu
Ólafur Jóhannesson (Valur)
Ólafur Jóhannesson er þjálfari fyrstu 11 umferðar Pepsi-deildar karla.
Ólafur Jóhannesson er þjálfari fyrstu 11 umferðar Pepsi-deildar karla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur með hina frægu 10-11 derhúfu.
Ólafur með hina frægu 10-11 derhúfu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals hefur verið valinn besti þjálfari umferða 1-11 í Pepsi-deild karla. Valsmenn eru í 4. sæti deildarinnar með 21 stig. Þremur stigum á eftir toppliði FH.

Ólafur er á sínu fyrsta ári sem þjálfari Vals eftir árs frí frá þjálfun. Valsliðið hefur spilað skemmtilega fótbolta í sumar, skorað næst flest liða í deildinni og unnið tvö efstu lið deildarinnar, FH og KR sannfærandi í fyrri umferðinni.

Geta litlu fagnað enn
„Ég vil meina það að við höfum spilað vel lungan af mótinu. Auðvitað hafa einhverjir leikir ekki verið nægilega góðir, en aðrir mjög góðir. Það hafa verið fleiri góðir leiki en slæmir og ég er ánægður með það," sagði Ólafur sem hefur sopið nánast allar fjörur boltans og heldur því ró sinni þrátt fyrir gott gengi liðsins hingað til.

„Við gældum við ákveðna hluti fyrir mót og vonandi gengur það eftir. Það er hinsvegar mikið eftir af þessu móti og við getum litlu fagnað núna."

Ólafur segist vera ánægður með liðsheildina í hópnum og segir það hafa verið mikilvægan hlut í undirbúningi þjálfaranna fyrir mót, að ná upp góðri liðsheild.

„Liðsheildin er mjög sterk. Við höfum lagt mikið uppúr því að ná góðri liðsheild og það hefur gengið ágætlega. Það er mikilvægt fyrir öll lið að vera með góða liðsheild og það skilar sér yfirleitt í betri spilamennsku."

Skoðuðu marga miðverði í vetur
Það hefur verið lítið í umræðunni að Valur stillir upp nýrri öftustu línu á þessu tímabili. Aðeins Bjarni Ólafur Eiríksson spilaði í vörn Vals í fyrra ásamt því að nýr markmaður er í rammanum. Það tekur yfirleitt tíma að slípa saman varnarlínu hvers liðs og það hefur gengið vel hjá Valsmönnum hingað til.

Síðasta púslið í varnarlínu Vals, kom í upphafi móts þegar Valur samdi við danska miðvörðinn, Thomas Guldborg Christensen sem hefur verið afar traustur í hjarta varnarinnar og vart stigið feilspor á vellinum. Það er kannski ekki nema von, enda var Gullborgin að mála hjá Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni áður en hann gekk til liðs við Val. Þar eru menn ekkert að leika sér á sandölum.

„Við höfðum leitað að góðum miðverði í allan vetur sem hafði reynslu og gæti stjórnað vörninni. Við skoðuðum marga leikmenn og fundum ekki rétta manninn fyrir mót. En við fengum síðan Thomas í byrjun móts og hann hefur staðið sig mjög vel," sagði Ólafur sem er einnig ánægður með spilamennsku Orra Sigurðar sem kom til Vals frá AGF í Danmörku.

„Hann er mjög efnilegur leikmaður og hefur staðið sig mjög vel bæði með okkur og unglingalandsliðinu. Eftir að við fengum hann, þó fórum við að leita af reynslu meiri miðverði til að vera með honum í hjarta varnarinnar. Síðan hafa þeir sem spilað hafa hægri bakvörðinn staðið sig mjög vel, þeir Andri Fannar og Baldvin Sturluson. Auk þess sem Bjarni Ólafur þekkir sína stöðu vel í vinstri bakverðinum. Þetta hefur því slípast ágætlega til."

Væntingarnar gengið eftir
Ummæli Ólafs fyrir mótið um væntingar liðsins vöktu athygli margra. Þar talaði hann til að mynda um það að Evrópusæti væri langsótt fyrir Valsmenn. Ólafur segir að þar hafi hann alls ekki verið að tala væntingar liðsins niður.

„Við settum okkur ákveðin markmið fyrir mótið og við erum að vinna í því að ná þeim markmiðum. Mótið er ekki nema hálfnað, en væntingarnar hafa hingað til gengið eftir."

„Við erum á góðu róli núna og við tökum næsta leik fyrir og reynum að safna eins mörgum stigum og hægt er. Síðan teljum við stigin í lok móts. Okkur hefur gengið vel og erum á ágætum stað í deildinni. Það verður síðan að koma í ljós hvert það skilar okkur í haust."

En hvað er málið með 10/11 derhúfuna sem Ólafur hefur verið með í leikjum liðsins í sumar? Svarið er einfalt: „10/11 styrkir Val og hluti af því er að ég sé með þessa húfu."

„Þetta er fín húfa. Hún er með geysilega fallegum Framsóknar-grænum 10/11 lit. Þetta er góð húfa og ég skora á alla að fá sér svona húfu. Ég verð með hana áfram," sagði þjálfari 1-11 umferðar Pepsi-deildarinnar að lokum.

Sjá einnig:
Úrvalslið umferða 1-11
Dómari umferða 1-11
Athugasemdir
banner
banner