Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   mán 09. október 2017 22:51
Alexander Freyr Tamimi
Norrænir fjölmiðlar hissa á árangri Íslands
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erlendir fjölmiðlar eru agndofa yfir frábærum árangri íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem tryggði sér sæti á HM 2018 í Rússlandi með 2-0 sigri gegn Kósóvó á Laugardalsvelli í kvöld.

Flestir fjölmiðlar leggja áherslu á að Íslands sé langsmæsta þjóðin sem nokkurn tíma hefur komist í lokakeppni heimsmeistaramóts. Til að mynda talar breska dagblaðið Daily Mail um „ótrúlegt afrek“ þessarar litlu þjóðar.

Norrænu miðlarnir samgleðjast okkur Íslendingum og eru margir hverjir steinhissa.

„Það er algjörlega klikkað að smáþjóð eins og Ísland geti afrekað þetta. Það er ekki annað hægt en að taka að ofan og dást af Íslandi,“ sagði Kjetil Rekdal, norskur sérfræðingur hjá Eurosport, en þetta er haft eftir honum í Verdens Gang.

„Í mörg ár hefur Ísland verið smáþjóð í knattspyrnu en með 2-0 sigrinum gegn Kósóvó hefur þessi eyja með 335,000 íbúa tryggt sér sæti á HM í Rússlandi í sumar,“ sagði í umfjöllun hins danska Ekstra Bladet. Líkt og sönnum Dönum sæmir sagði blaðamaður að leikurinn hefði verið slakur og að mark Gylfa Þórs Sigurðssonar hafi komið upp úr engu.

Í umfjöllun sænska dagblaðsins Aftonbladet segir að Ísland haldi áfram að skrá sig á spjöld sögunnar, jafnvel þótt Lars Lagerback sé ekki lengur landsliðsþjálfari. Það virðist koma Svíum á óvart að Ísland hafi haldið áfram sinni vegferð án Lars.

Sjálfsagt munu fjölmiðlar halda áfram að fjalla um afrek Íslands á næstu dögum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner