Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 22. júní 2017 15:30
Elvar Geir Magnússon
Bjössi Hreiðars: Eins og að fá mann til baka úr fríi
Sigurbjörn Hreiðarsson á hliðarlínunni.
Sigurbjörn Hreiðarsson á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Sóknarmaðurinn öflugi Patrick Pedersen.
Sóknarmaðurinn öflugi Patrick Pedersen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valsmenn heimsæka Fjölnisvöll á laugardag.
Valsmenn heimsæka Fjölnisvöll á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valsmenn fengu góðar fréttir í gær þegar staðfest var að sóknarmaðurinn Patrick Pedersen væri genginn í raðir félagsins.

Sumarið 2015 varð Patrick markakóngur Pepsi-deildarinnar en eftir það fór hann til Viking í Noregi.

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, segir að mikil gleði sé með að fá Patrick aftur á Hlíðarenda.

„Það er engin spurning að við erum ótrúlega ánægðir með að fá hann til okkar. Við þekkjum hann mjög vel og hann okkur og flesta í liðinu. Þetta er eins og að fá leikmann til baka sem hefur tekið sér smá frí frá þessu" segir Sigurbjörn.

Ánægðir með að fá hann í vopnabúrið
Patrick þurfti mikið að verma varamannabekkinn hjá Viking á tímabilinu. Óttast þjálfararnir ekki að sjálfstraust leikmannsins sé lítið?

„Þegar svona gerist þá geta menn alveg farið að efast aðeins um sjálfan. Ef sú er raunin verður hann fljótur að ná sér upp úr því. Hann mun þá rífa sig upp úr því þegar hann fer að spila fótbolta aftur af krafti. Gleðin er fljót að koma og þá getur þessi frábæri leikmaður notið sín."

Valsmenn hafa litið gríðarlega vel út í sumar og ljóst að erfitt verður að stöðva þá eftir að Patrick Pedersen er farinn að spila með liðinu.

„Hann kemur til með að auka breiddina fram á við og gefur okkur möguleika á ýmsum hlutum þar. Það hlýtur að styrkja okkur. En við vitum það að þegar öflugur leikmaður kemur inn geta hin liðin tekið fastar á því og undirbúið sig betur undir það. Við erum bara að hugsa um okkur og erum ánægðir með að fá hann inn í okkar vopnabúr," segir Sigurbjörn.

Danirnir Nicolas Bögild, Nicolaj Köhlert og Nikolaj Hansen hafa ekki staðið undir væntingum hjá Val. Í síðasta leik byrjaði Bögild á bekknum en hinir tveir voru utan hóps. Er staða þeirra eitthvað breytt eftir að Patrick kom?

„Nei nei, þetta eru bara okkar leikmenn. Þeir verða það áfram þar til annað kemur í ljós. Við erum með stóran og góðan hóp og erum ánægðir með það."

Patrick kemur til landsins á næstu dögum en verður ekki löglegur með Val strax. Hann getur ekki spilað næstu tvo deildarleiki en verður klár eftir að félagaskiptaglugginn opnar, í leik gegn Víkingi Reykjavík í 11. umferð sunnudaginn 16. júlí.

Verður að taka Fjölnismenn alvarlega
Næsta verkefni Vals er að heimsækja Fjölni á laugardaginn klukkan 14. Leikurinn er á þessum sérstaka tíma vegna Evrópuverkefna framundan hjá Val.

„Tvö á laugardegi er leiktími sem maður er ekki vanur að eiga við. Það er Fjölnisvöllur sem er næsta verkefni. Það verður mjög erfitt. Það hefur ekki gengið allt of vel hjá okkur þegar við höfum farið þangað undandarin ár, það er alveg á hreinu. Við þurfum að eiga okkar allra besta leik til að vinna Fjölni," segir Sigurbjörn.

„Maður hefur verið að skoða Fjölni undanfarið og það er fullt af flottum hlutum í gangi hjá liðinu. Á góðum degi er þetta hörkulið með hörkuleikmenn sem verður að taka mjög alvarlega."

Bjarni Ólafur Eiríksson verður ekki með í leiknum á laugardaginn vegna leikbanns eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn KA.

„Bjarni er besti vinstri bakvörðurinn í þessari deild, það er bara þannig. Það myndu öll lið finna fyrir því að missa hann út úr leiknum. Við verðum með mann í þessari stöðu á laugardaginn," segir Sigurbjörn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner