Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 07. október 2021 20:58
Elvar Geir Magnússon
Ian Jeffs nýr þjálfari Þróttar Reykjavík (Staðfest)
Ian Jeffs.
Ian Jeffs.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ian Jeffs er að taka við Þrótti Reykjavík samkvæmt heimildum Fótbolta.net. Jeffs fær það verkefni að koma Þrótturum upp úr 2. deildinni en liðið féll úr Lengjudeildinni á liðnu tímabili.

Guðlaugur Baldursson tilkynnti eftir tímabilið að hann hefði ákveðið að láta af störfum sem þjálfari Þróttara.

Jeffs er fyrrum aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins en á liðnu tímabili var hann aðstoðarmaður Helga Sigurðssonar hjá karlaliði ÍBV sem náði að tryggja sér sæti í efstu deild.

„Ég er búinn að vera svolítið lengi hjá ÍBV, þjálfað kvenna- og karlaliðið sem og flesta flokka. Mér fannst kominn tími til að prófa eitthvað nýtt. Ef það kemur eitthvað spennandi tækifæri upp þá skoða ég það," sagði Jeffs í viðtali í lok september.

Jeffs er 38 ára, hann fæddist í Chester á Englandi en kom fyrst til Íslands 2003 til að spila fyrir ÍBV og hefur verið hér á landi nánast síðan þá.

Uppfærð frétt: Þróttur hefur staðfest ráðninguna á Jeffs. Fréttatilkynningur Þróttar má sjá hér að neðan:

„Ian David Jeffs hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Þróttar í Reykjavík til næstu 3 ára. Skrifað var undir samning þess efnis í dag. Ian Jeffs er margreyndur þjálfari og leikmaður, hann hefur þjálfað bæði meistaraflokk karla og kvenna í efstu deild í Vestmannaeyjum og verið aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins. Jeffs hefur að auki leikið yfir 270 leiki í meistaraflokki á Íslandi frá því hann kom fyrst til landsins frá Englandi árið 2003.

Þróttarar vænta mikils af Ian Jeffs næstu árin, hann mun leiða uppbyggingu karlaliðs félagsins sem nú leikur í 2. deild og huga sérstaklega að þeim mikla efnivið sem í félaginu býr.

Þróttarar bjóða Ian David Jeffs hjartanlega velkominn í Laugardalinn."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner