Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 16. nóvember 2021 09:50
Elvar Geir Magnússon
Óttar Bjarni í Leikni (Staðfest) - „Var alltaf planið að snúa heim"
Óttar Bjarni Guðmundsson og framkvæmdastjóri Leiknis, Stefán Páll Magnússon.
Óttar Bjarni Guðmundsson og framkvæmdastjóri Leiknis, Stefán Páll Magnússon.
Mynd: Leiknir
Leiknir hefur staðfest endurkomu Óttars Bjarna Guðmundssonar frá ÍA. Óttar Bjarni var fyrirliði ÍA í sumar en samningur hans rann út eftir að tímabilinu lauk.

Óttar er 31 árs varnarmaður sem er uppalinn hjá Leikni og lék í meistaraflokki í Breiðholti frá árinu 2008-2016. Þá hélt hann í Stjörnuna og var þar í tvö tímabil áður en hann samdi við ÍA.

„Það er með mikilli gleði sem Leiknir tilkynnir um endurkomu Óttars Bjarna Guðmundssonar í Stolt Breiðholts," segir á heimasíðu Leiknis.

„Koma Óttars styrkir öflugan varnarleik Leiknis enn frekar fyrir næsta tímabil í efstu deild. Allt Leiknisfólk fagnar heimkomu Óttars sem hefur fyrir löngu sannað sig sem mikill leiðtogi og framúrskarandi varnarmaður."

Óttar er sjálfur í viðtali við heimasíðu Leiknis.

„Þetta hefur verið frábær tími og ég hef kynnst góðu fólki. Ég tel að það hafi verið nauðsynlegt að víkka sjóndeildarhringinn en það var alltaf planið að koma heim og klára ferilinn þar," segir Óttar meðal annars.

„Þetta er góður tímapunktur til að koma heim. Það er uppgangur í félaginu og liðið stóð sig frábærlega í sumar."

Leiknismenn áttu öflugt tímabil í Pepsi Max-deildinni. Liðið endaði í áttunda sæti og náði í fyrsta sinn í sögu félagsins að halda sér í deild þeirra bestu.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner