þri 17. júlí 2018 10:05
Hafliði Breiðfjörð
Heimir hættur með íslenska landsliðið (Staðfest)
Icelandair
Heimir er hættur með íslenska landsliðið.
Heimir er hættur með íslenska landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Bergsson fær nú það verkefni að ráða nýjan þjálfara.
Guðni Bergsson fær nú það verkefni að ráða nýjan þjálfara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson er hættur þjálfun íslenska landsliðsins en þetta var staðfest í tilkynningu frá KSÍ rétt í þessu.

Heimir hefur lengi gefið í skyn að hann gæti hætt með liðið eftir Heimsmeistaramótið í Rússlandi og nú er staðfest að hann hefur tekið ákvörðun um að gera það.

Hann tók við sem aðstoðarþjálfari Lars Lagerback með liðið fyrir sjö árum og eftir Evrópumótið 2016 var hann ráðinn aðalþjálfari liðsins. Hann er nú hættur með liðið.

KSÍ mun nú hefja vinnu við að finna nýjan þjálfara fyrirliðið að því er sagt í tilkynningu sambandsins. Sambandið hefur boðað til fréttamannafundar síðar í dag þar sem spurningum fréttamanna verður svarað um málið.

Fréttatilkynning KSÍ
KSÍ getur nú staðfest að Heimir Hallgrímsson verður ekki áfram þjálfari A landsliðs karla. Sem kunnugt er urðu aðilar ásáttir um að gefa sér góðan tíma til að meta stöðuna í aðdraganda úrslitakeppni HM 2018, og taka upp þráðinn að móti loknu. Niðurstaðan er sú að Heimir hættir með liðið.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ: „Heimir var auðvitað okkar fyrsti kostur í starfið, enda hefur hann unnið frábært starf á þessum árum sem hann hefur verið með liðið. Íslensk knattspyrna hefur aldrei staðið jafn framarlega og aldrei áður notið jafn mikillar athygli hérlendis sem erlendis. Við bundum miklar vonir við að Heimir yrði áfram, en niðurstaðan er þó sú að Heimir hættir með liðið að eigin ósk og vil ég fyrir hönd KSÍ þakka honum kærlega fyrir samstarfið og óska honum alls hins besta í framtíðinni. KSÍ mun nú taka næstu skref í ráðningu nýs landsliðsþjálfara“.

Heimir Hallgrímsson, fráfarandi landsliðsþjálfari:
„Eftir 7 góð ár hjá Knattspyrnusambandi Íslands hef ég ákveðið að halda ekki áfram með A-landslið karla. Ég skil sáttur og þakklátur fyrir að hafa fengið að vera hluti af þessari sterku liðsheild sem þessi hópur hefur fyrst og fremst staðið fyrir. Hluti af hópi sem hefur rutt leiðina fyrir komandi kynslóðir og gert svo ótal margt í fyrsta skipti í sögunni. Það eru forréttindi að geta yfirgefið verkefnið á tímapunkti eins og í dag. Leikmenn á toppi síns ferils og hópurinn með mikla reynslu. Umgjörð, vinnuumhverfi og verkferlar í föstum skorðum. Góður árangur hefur tryggt okkur sæti meðal þeirra bestu næstu ár. Árangurinn og frammistaðan hefur skapað virðingu fyrir íslenskri knattspyrnu. Þó leikmenn eigi heiðurinn og stærsta þáttinn í velgengninni þá er þáttur starfsfólksins í kringum liðið ómetanlegur. Verkefnin framundan eru stór og spennandi. Um leið og ég þakka öllu samstarfsfólki, leikmönnum og stuðningsmönnum fyrir samstarfið, þá óska ég ykkur öllum velgengni næstu árin því ferðalagið er rétt að hefjast.​“
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner