Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   lau 18. júní 2022 19:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tveir sem hafi verið að leka upplýsingum séu núna farnir
Mynd: Getty Images
Á síðustu árum hefur mikið af upplýsingum verið lekið úr búningsklefanum hjá Manchester United. Það gerðist mjög augljóslega á síðasta tímabili, sérstaklega eftir að Ralf Rangnick tók við liðinu.

Fjölmiðlar á Bretlandseyjum fengu miklar upplýsingar úr búningsklefanum eins og til að mynda að leikmenn væru ósáttir við æfingaaðferðir Rangnick, hvað Þjóðverjinn öskraði mikið á æfingasvæðinu og að ákveðnir leikmenn væru að spila of mikið miðað við frammistöðu.

Alls konar upplýsingar láku til fjölmiðla, upplýsingar sem áttu bara að vera á milli leikmanna og þjálfara liðsins. Var það ekki að gera mikið til þess að hjálpa liðinu að ná árangri innan vallar og sannaði það bara að mikil óeining væri innan hópsins.

Richard Arnold, framkvæmdastjóri Man Utd, hitti í dag stuðningsmenn og spjallaði við þá. Hann greindi meðal annars frá því að innan félagsins hefðu þessu lekamál verið rannsökuð og er hann viss um að tveir leikmenn sem hafi verið að leka upplýsingum séu nú farnir frá félaginu.

Þeir leikmenn sem eru farnir frá félaginu í sumar eru: Edinson Cavani, Paul Pogba, Jesse Lingard, Lee Grant, Nemanja Matic og Juan Mata.

Dæmi nú hver fyrir sig, en Arnold nefndi engin nöfn.

Erik ten Hag tók við Man Utd í sumar og hann vonast eflaust til að þétta hópinn og passa upp á að menn séu ekki að leka upplýsingum sem eiga ekkert að fara út fyrir klefann.
Athugasemdir
banner
banner