Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mán 29. ágúst 2022 18:20
Ívan Guðjón Baldursson
Belotti fær ellefuna hjá Roma (Staðfest)
Mynd: Getty Images

Ítalski sóknarmaðurinn Andrea Belotti er genginn til liðs við AS Roma á frjálsri sölu eftir sjö ár í Tórínó þar sem hann skoraði nákvæmlega 100 mörk í 232 deildarleikjum.


Belotti er 28 ára gamall og hefur skorað 12 mörk í 44 landsleikjum með Ítalíu, þar sem hann hefur oft verið að koma inn af bekknum fyrir Ciro Immobile.

Hann hefur verið að glíma við erfið meiðsli á undanförnum árum en er búinn að spila mikið þrátt fyrir þau. Hann gerir aðeins eins árs samning við Roma en félagið hefur möguleika á að framlengja hann um tvö ár ef samstarfið gengur að óskum. Hjá Roma mun hann berjast við Tammy Abraham um byrjunarliðssæti í fremstu víglínu.

Belotti skoraði 26 mörk á sínu besta tímabili í Serie A 2016-17 en hefur síðan þá aldrei skorað meira en 16 mörk á deildartímabili. Hann hefur einu sinni farið með Torino í Evrópukeppni og skoraði þar sex mörk í sex leikjum. 'Haninn' svokallaði fær núna loksins tækifæri til að sanna sig hjá stórliði.

Jose Mourinho hefur verið að styrkja lið Rómverja umtalsvert í sumar og auk þess að fá Belotti frítt kom Paulo Dybala fyrr í sumar á frjálsri sölu frá Juventus.

Félagið hefur þar að auki krækt í Georginio Wijnaldum og Nemanja Matic á frjálsum sölum en Wijnaldum braut bein í sköflungi og verður frá keppni næstu mánuðina. Eini leikmaðurinn sem Roma hefur keypt í sumar er hægri bakvörðurinn Zeki Celik sem á að veita Rick Karsdorp samkeppni.

Roma er með sjö stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Liðið gerði jafntefli við Juventus í síðustu umferð og deilir toppsætinu með fimm öðrum liðum.


Athugasemdir
banner
banner
banner