Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   sun 14. janúar 2024 02:02
Brynjar Ingi Erluson
Íslenskur sigur í sólskinsfylkinu - Ísak Snær gerði sitt fyrsta A-landsliðsmark
Ísak Snær tryggði Íslandi sigur með fyrsta A-landsliðsmarki sínu
Ísak Snær tryggði Íslandi sigur með fyrsta A-landsliðsmarki sínu
Mynd: EPA
Kolbeinn Birgir Finnsson í leiknum.
Kolbeinn Birgir Finnsson í leiknum.
Mynd: EPA
Stefán Teitur Þórðarson.
Stefán Teitur Þórðarson.
Mynd: EPA
Gvatemala 0 - 1 Ísland
0-1 Ísak Snær Þorvaldsson ('79 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið hafði sigur gegn Gvatemala í vináttulandsleik á DRV PNK-leikvanginum í Fort Lauderdale í Flórída í Bandaríkjunum í nótt en lokatölur urðu 1-0, Íslandi í vil.

Strákarnir voru líklegri aðilinn framan af. Gvatemala hafði spilað fimm leiki á þessum velli og aldrei tapað áður en það mætti sterku liði Íslands.

Íslenska liðið fékk mörg hálffæri og þá vildi Andri Lucas Guðjohnsen vítaspyrnu eftir hálftíma leik er José Carlos Pinto fleygði sér í hann en ekkert dæmt.

Brynjólfur Andersen Willumsson fékk hættulegasta færi Íslands í fyrri hálfleiknum. Kolbeinn Birgir Finnsson átti fínasta bolta í gegn og náði Brynjólfur að komast fram fyrir varnarmann Gvatemala, en skot hans var laust og náði markvörður Gvatemala að lesa það.

Ísak Snær Þorvaldsson, Kristall M'ani Ingason og Logi Tómasson komu allir inn í hálfleik og átti það eftir að reynast íslenska liðinu vel.

Gvatemala fékk tækifæri til að komast yfir á 65. mínútu er það kom fyrirgjöf frá h ægri en Gabriel García fékk boltann í sig og framhjá markinu.

Þegar ellefu mínútur voru til leiksloka kom sigurmarkið. Logi átti laglega fyrirgjöf inn í teiginn og náði Jason Daði Svanþórsson að leggja boltann fyrir Ísak Snæ sem skoraði með föstu skoti í hægra hornið. Fyrsta A-landsliðsmark hans.



Gvatemala fór að sækja meira á íslenska liðið og átti José Morales meðal annars skot rétt yfir markið úr teignum. Það var svo hreint út sagt með ólíkindum hvernig Gvatemala jafnaði ekki undir lok leiks en Hákon Rafn Valdimarsson, sem hafði fremur lítið að gera í leiknum, bjargaði tvisvar og Brynjar Ingi Bjarnason einu sinni áður en flautað var til leiksloka.

Íslenska liðið varðist vel og skóp góðan sigur. Åge Hairede, þjálfari landsliðsins, fékk að skoða marga leikmenn í þessum leik og þó nokkrir sem nýttu tækifærið vel.

Lið Íslands: Hákon Rafn Valdimarsson (m), Daníel Leó Grétarsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Dagur Dan Þórhallsson, Kolbeinn Finnsson ('46, Logi Tómasson), Stefán Teitur Þórðarson, Eggert Aron Guðmundsson, Arnór Ingvi Traustason ('71, Kolbeinn Þórðarson), Birnir Snær Ingason ('46, Kristall Máni Ingason), Brynjólfur Willumsson ('75, Jason Daði Svanþórsson), Andri Lucas Guðjohnsen ('46, Ísak Snær Þorvaldsson)

Ísland mætir Hondúras í vináttulandsleik á sama velli aðfaranótt fimmtudags en sá leikur hefst klukkan 01:00.
Athugasemdir
banner
banner