fim 08. nóvember 2018 14:30
Magnús Már Einarsson
Kristinn Guðbrands tekur við Skallagrími (Staðfest)
Kristinn Guðbrandsson.
Kristinn Guðbrandsson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Kristinn Guðbrandsson hefur verið ráðinn þjálfari Skallagríms fyrir keppni í 3. deild næsta sumar. Þetta staðfesti Gísli Einarsson í stjórn knattspyrnudeildar Skallagríms í samtali við Fótbolta.net í dag.

Kristinn, sem spilaði með Keflavík í áraraðir, þjálfaði síðast kvennalið ÍA síðari hlutann í Pepsi-deildinni 2016.

Árið 2009 var Kristinn þjálfari Víkings Ólafsvíkur í 1. deildinni og tvö ár þar á eftir var hann aðstoðarþjálfari Fylkis í Pepsi-deildinni.

Kristinn tekur við Skallagrími af Yngva Borgþórssyni sem stýrði liðinu upp úr fjórðu deildinni síðastliðið sumar.

„Þetta var fyrsta nafnið sem við stöldruðum við. Þetta er maður með mikla reynslu og jafnramt ljúfur og góður náungi," sagði Gísli Einarsson við Fótbolta.net í dag.

Skallagrímur komst aftur upp úr neðstu deild í haust eftir sextán ár í röð þar.

„Við erum komnir upp í 3. deildina og ætlum okkur ekki niður aftur. Markmiðið er að ná góðum árangri þar. Leikmenn og aðrir sem koma að þessu er spenntir," sagði Gísli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner