fös 12. apríl 2019 09:45
Elvar Geir Magnússon
Bjarni Viðars leggur skóna á hilluna (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Bjarni Þór Viðarsson hefur þurft að setja skóna upp í hillu að læknisráði vegna meiðsla á öxl. Hann staðfesti í samtali við Fréttablaðið að fótboltaferlinum sé lokið.

Bjarni, sem er 31 árs, er uppalinn FH-ingur en fór ungur til Everton. Hann fór í lán til Bournemouth og þekkir enska boltann mjög vel. Hann var fyrirliði U-21 árs landsliðs Íslands sem fór í fyrsta sinn á stórmót í Danmörku.

Bjarni gat ekkert spilað í fyrra en árið þar á undan lék hann átta leiki í Pepsi-deildinni. Hann varð Íslandsmeistari með FH 2015 og 2016.

Nú tekur við nýr kafli hjá Bjarna sem verður í teymi Símans í umfjöllun um enska boltann á næsta tímabili. Þar mun hann lýsa leikjum og vera sérfræðingur.

„Mér líst vel á þetta og er mjög spenntur. Ég verð aðallega að lýsa og þetta verður nýtt fyrir mér og kannski svolítið út fyrir þægindarammann en ég hlakka til. Núna er fótboltinn búinn hjá mér, ég þarf að hætta vegna meiðsla, en þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar og þetta eru mjög spennandi dyr að ganga í gegnum," sagði Bjarni við Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamann á Fréttablaðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner