sun 18. desember 2022 12:06
Ívan Guðjón Baldursson
Southgate verður áfram með England (Staðfest)
Mynd: Getty Images
Enska fótboltasambandið hefur staðfest að Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, verði áfram með stjórnartaumana. Southgate íhugaði að segja upp starfinu sínu eftir tap gegn Frakklandi í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins.


Englendingar spiluðu góðan leik gegn ríkjandi heimsmeisturum og voru óheppnir að gera ekki í það minnsta jafntefli og knýja leikinn þannig í framlengingu.

Það eru vonbrigði fyrir ensku þjóðina að detta út í 8-liða úrslitum en spilamennska liðsins þótti góð og engin ástæða til að skipta um þjálfara. Southgate hefur áfram trú á sínu starfi og verkefninu sem er í gangi og ætlar að vera við stjórnvölinn út EM 2024 hið minnsta, þar til samningurinn rennur út.

Southgate sagði við stjórnendur sambandsins að hann þyrfti tíma til að íhuga framtíðina eftir tapið gegn Frökkum.

Undir stjórn Southgate endaði enska landsliðið í 4. sæti á HM 2018 og 2. sæti á EM 2020 áður en haldið var til Katar.

„Það er með mikilli ánægju sem við tilkynnum Gareth og Steve Holland aðstoðarmaður hans verða áfram þjálfarar. Þeir hafa allan okkar stuðning og undirbúningur fyrir EM hefst núna," segir Mark Bullingham, framkvæmdastjóri enska sambandsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner