mið 27. nóvember 2019 18:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Donni tekur við U17 hjá Örgryte (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Donni var þjálfari Þór/KA þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2017.
Donni var þjálfari Þór/KA þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, hefur verið ráðinn þjálfari hjá Örgryte. Þar mun hann þjálfa U17 ára drengjalið félagsins.

Donni hefur undanfarin ár þjálfað Þór/KA á Akureyri. Þar áður þjálfaði hann karlalið Þórs. Seinni hluta sumars var hann aðstoðarmaður Óla Stefáns Flóventssonar hjá KA. Fótbolti.net heyrði í Donna í kvöld og spurði hann út í nýja starfið.

„Þetta verður gaman, þetta er spennandi starf," sagði Donni við Fótbolta.net.

Af hverju Svíþjóð á þessum tímapunkti? Var langt síðan þetta tilboð kom upp á borðið?

„Við fjölskyldan höfum verið lengi á leiðinni til Svíþjóðar. Þetta starf kom upp þegar við ákváðum að fara í haust, þá hafði ég samband við nokkur félög úti. Örgryte bauð mér þetta starf og ég tók því fegins hendi."

Donni var spurður út í hversu lengi fjölskydan ætli sér að halda til í Svíþjóð.

„Ekki hugmynd, við spilum það bara eftir eyranu. Þetta gætu verið 10-20 ár eða 1-3 ár. Við sjáum hvernig okkur líður hér og svo fer það líka eftir því hvernig gengur."

Hversu langur er þessi samningur sem Donni skrifaði undir?

„Þetta er fyrst eitt ár. Ég get losnað ef ég fæ stærra verkefni. Þetta snýst aðallega um að komast inn í þjálfaraheiminn í Svíþjóð. Það eru margir þjálfarar um hituna hér, þetta var góð leið til að komast inn í heiminn og læra málið."

Voru önnur félög sem Donni ræddi við?

„Ég var búinn að ræða við tvö önnur félög, þetta starf fannst mér mjög áhugavert.

Hvað er það sem heillar mest við þetta starf hjá Örgryte?

„Þetta er félag á uppleið. Félagið hefur 12 sinnum orðið Svíþjóðarmeistari og einu sinni orðið bikarmeistari. Þetta er sögufrægt lið, elsta félag landsins. Liðið er í mikilli sókn núna. Liðið komst upp úr 3. efstu deild árið 2015 og leikur í Superettan (næstefstu deild). Liðið er á uppleið."

„Strákarnir sem ég mun þjálfa eru allir á samningi hér. Annað hvort uppaldir eða sóttir í önnur félög. Það er mjög gott utanumhald utan um þetta félag. Umgjörðin er til fyrirmyndar."

„Möguleikinn er fyrir hendi að ég fái stærra hlutverk innan félagsins. Þó ég byrji hér þá gæti ég dottið inn með einhvers konar hlutverk hjá aðalliðinu, það er til umræðu."


Hvenær hefur Donni störf?

„Fjölskyldan flytur út 8. janúar svo ég hef störf þann dag eða daginn eftir," sagði Donni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner