banner
   mán 01. ágúst 2022 17:33
Ívan Guðjón Baldursson
Viðar Örn kominn til Atromitos (Staðfest)
Mynd: Atromitos

Gríska efstudeildarfélagið Atromitos FC er búið að tryggja sér íslenska markaskorarann Viðar Örn Kjartansson á tveggja ára samningi.


Viðar Örn er 32 ára og vildi nýja áskorun eftir að hafa verið hjá Vålerenga í Noregi síðustu tvö ár, þar sem hann skoraði 12 mörk í 28 deildarleikjum.

Sóknarmaðurinn knái fer til Atromitos á frjálsri sölu þökk sé Chris Coleman knattspyrnustjóra félagsins sem vildi ólmur fá hann til sín. Coleman er fyrrum landsliðsmaður Wales og hefur meðal annars þjálfað velska landsliðið, Fulham og Sunderland á ferlinum. 

Viðar hefur komið víða við á litríkum ferli en þetta verður í fyrsta sinn sem hann flytur til Grikklands eftir að hafa meðal annars búið í Ísrael, Kína, Rússlandi og Tyrklandi.

Viðar fær treyju númer 11 hjá Atromitos og segist vera gífurlega spenntur fyrir því að spila með félaginu í grísku deildinni undir stjórn hins þaulreynda Coleman.

„Ég veit að þetta er mikilvægt tímabil fyrir Atromitos. Ég veit að félagið er að verða 100 ára gamalt þannig ég vil gera mitt besta til að gera þetta að eftirminnilegu tímabili fyrir stuðningsmenn," sagði Viðar meðal annars þegar hann var kynntur í dag.

Viðar Örn, sem hefur verið markakóngur í þremur mismunandi deildum, á 32 leiki að baki fyrir A-landslið Íslands.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner