Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fös 10. janúar 2020 15:02
Magnús Már Einarsson
Kristian Nökkvi til Ajax (Staðfest)
Kristian Nökkvi Hlynsson.
Kristian Nökkvi Hlynsson.
Mynd: Breiðablik
Kristian Nökkvi Hlynsson, leikmaður Breiðabliks, hefur gengið til liðs við hollenska félagið Ajax. Kristian Nökkvi skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við félagið.

Kristian er yngsti leikmaður (15 ára og 248 daga gamall) í sögu Breiðabliks til þess að spila leik í efstu deild karla en það gerði hann gegn KR í lokaumferðinni í fyrra.

Kristian á átta leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands og hefur hann skorað í þeim leikjum tvö mörk. Hann er sóknarsinnaður leikmaður sem nýtur sín best fremstur á miðju.

„Þetta er gott fyrir íslenskan fótbolta. Þetta er efnilegur strákur sem er bróður Ágústar Hlyns í Víkingi. Hann hefur spilað hjá Óskari (Hrafni Þorvaldssyni) í meistaraflokki undanfarið," sagði umboðsmaðurinn Bjarki Gunnlaugsson hjá Stellar Nordic við Fótbolta.net.

Kristian fór einnig til reynslu hjá Bayern München og Nordsjælland í fyrra.

„Þeir hafa fylgst með honum síðan í sumar og hann var eftirsóttur. Hann kíkti á nokkur félög en á endanum fannst honum Ajax vera málið. Það er frábær saga í akademíunni og leikmenn sjá leið inn í aðalliðið. Ég held það sé enginn klúbbur betri en Ajax í þeim efnum."

„Þeir hafa sýnt og sannað í gegnum árin að leikmenn fara í gegn ef þeir eru nógu góðir. Þeir eiga einnig þvílíka sögu þegar kemur að titlum og Evrópukeppninni."

Athugasemdir
banner
banner