Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir var að klára sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu. Það var súrsæt tilfinning að tapa ekki leik, en stelpurnar eru auðvitað svekktar með að fara heim af mótinu.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 1 Frakkland
Íslenska landsliðskonan kom við sögu í tveimur leikjum Íslands á Evrópumótinu, þar sem hún kom inná sem varamaður fyrir Hallberu Guðnýju Gísladóttir.
Liðið gerði þrjú jafntefli í riðlakeppninni en stærsta stigið var sennilega gegn Frökkum í kvöld.
Ísland fékk vítaspyrnu þegar búið var að flauta leikinn af. Dómari leiksins skoðaði mögulegt brot á Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur í VAR og ákvað að dæma vítaspyrnu. Dagný Brynjarsdóttir skoraði úr spyrnunni áður en leikurinn var flautaður af.
„Þetta var mikill rússíbani. Mér fannst hörkubarátta og fann að okkur langaði að skora og okkur langaði áfram. Það sást inni á vellinum og orkan var mikil."
„Ég hefði viljað auka 30 sekúndur til að setja aukamark og klára þetta."
„Þetta er mjög skrítinn leikur og aldrei lent í þessu. Að fá þetta í andlitið og svo er þetta tekið til baka, vonin lifir og síðan aftur sem víti. Ég er ekki vön þessu en þetta gaf okkur alveg mikla von og hjálpaði okkur," sagði Áslaug Munda.
Hún segir að stelpurnar hafi ekki fengið að vita stöðuna úr hinum leiknum, en Sandra Sigurðardóttir, markvörður landsliðsins, viðurkenndi reyndar í viðtali við Fótbolta.net í kvöld að Þorsteinn Halldórsson hafi látið þær vita að þær þyrftu tvö mörk.
„Nei, við vorum að einbeita okkur að þessum leik og ætluðum að klára hann. Það kæmi svo bara í ljós hvernig hinn leikurinn færi."
„Ég vissi það ekki fyrr en ég sá andlitin á öllum þegar þau löbbuðu inn á eftir leik," sagði Áslaug þegar hún komst að því að Ísland væri úr leik.
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan
Athugasemdir