Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   þri 29. október 2019 14:30
Magnús Már Einarsson
Guðjón Þórðar sagði upp hjá NSÍ
Sótti um að taka við færeyska landsliðinu
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Guðjón Þórðarson hefur sagt upp störfum hjá NSÍ Runavík í Færeyjum en þetta staðfesti hann í þættinum „Mín skoðun" með Valtý Birni á fotbolti.is í dag.

Guðjón gerði tveggja ára samning við NSÍ Runavík síðastliðinn vetur en liðið endaði í 3. sæti í færeysku úrvalsdeildinni sem lauk um helgina.

„Ég á ekki von á því að fá annað tilboð frá NSÍ," sagði Guðjón í Mín Skoðun og staðfesti að hann hefði nýtt sér uppsagnarákvæði í samningi sínum.

„Það bendir fátt til þess að ég verði áfram. Það bendir minna til þess en ekki. Ég tók upp viðræður við formanninn, sem ég hef átt mjög gott samstarf við, og ræddi mína stöðu. Eins og staðan er í dag er ekki útlit fyrir að ég haldi áfram. Ávinningurinn var ekki nógu mikill. Það verður að vera meiri ávinningur ef maður á að vera frá fjölskyldu og stígur í burtu."

„Ég keyrði á gamaldags aðferðarfræði. VIð æfðum þéttingsfast, vorum í formi og spiluðum ágætis fótbolta. Við skoruðum flest mörk í deildinni en það vantaði aðeins upp varnarleikinn. Við spiluðum svolítinn beittan sóknarleik. Til marks um það var markahæsti leikmaður okkar með 26 mörk í 26 leikjum," sagði Guðjón en framherjinn Klæmint Olsen setti markamet í færeysku úrvalsdeildinni í ár.

Guðjón er reyndur þjálfari en hann hefur meðal annars stýrt íslenska landsliðinu og Stoke á ferli sínum. Hann stýrði Grindavík síðast á Íslandi árið 2012.

Lars Olsen er að hætta sem þjálfari færeyska landsliðsins og Guðjón hefur sýnt áhuga á að taka við. „Ég sótti um þetta starf og það kemur í ljós hvað verður. Þeir ætla að raða upp einhverjum lista sem þeir ætla að skoða eftir landsliðsverkefnið í nóvember," sagði Guðjón í Mín skoðun.
Athugasemdir
banner
banner