Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   þri 12. júlí 2016 15:15
Arnar Daði Arnarsson
Best í 7. umferð: Oft til í að rífa höfuðbandið af mér
Írunn Þorbjörg Aradóttir - Þór/KA
Írunn í leik gegn Breiðablik í sumar.
Írunn í leik gegn Breiðablik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við komum mjög ákveðnar til leiks og byrjuðum leikinn vel sem skilaði okkur marki á fyrstu mínútunum, það var mjög mikilvægt," sagði miðjumaðurinn, Írunn Þorbjörg Aradóttir leikmaður Þór/KA.

Írunn er leikmaður 7. umferðar í Pepsi-deild kvenna hjá Fótbolta.net en hún átti mjög góðan leik á miðjunni hjá Þór/KA í 3-0 sigri gegn Selfossi.

Mikilvægt eftir skellinn á Hlíðarenda
„Við vorum mjög þéttar og spiluðum sem ein heild. Það sem ég var ánægðust með var hvað við vorum ákveðnar og gáfum fá færi á okkur en sköpuðum mikið fram á við," sagði Írunn en Þór/KA tapaði illa gegn Val í umferðinni á undan og komu því ákveðnar til leiks.

„Það var rosalega mikilvægt fyrir okkur að ná sigri eftir þennan skell sem við fengum á Hlíðarenda. Það var gott að fá mark snemma í leiknum, það gaf okkur aukið sjálfstraust sem skilaði sér í fleiri mörkum, við óðum í færum og hefðum getað sett fleiri mörk."

„Ég var ágætlega sátt með spilamennskuna mína þó ég eigi ennþá eftir að setjann en það hlýtur að fara detta inn í næstu leikjum. Annars voru allir að spila mjög vel hjá okkur og það var það sem skóp þennan sigur," sagði Írunn sem spilar með höfuðband í leikjum en hún hefur verið óheppin með höfuðhögg síðustu ár.

Mikil vakning í kringm höfuðmeiðsl
„Þetta er fyrsta sumarið sem ég nota þetta höfuðband almennilega. Eftir að ég fékk, núna í vetur, höfuðhögg í þriðja sinn á fimm árum ákvað ég að ég þyrfti að byrja nota þetta band svo ég gæti haldið áfram að spila fótbolta."

„Fyrst var það ekki þægilegt en það venst með hverjum leiknum. Ég væri samt oft til í að rífa það af mér en þegar hausinn er undir þá borgar sig að vera skynsamur. Svona höfuðmeiðsl geta verið hundleiðinleg og maður er lengi að jafna sig eftir svona höfuðhögg. Maður þarf líka alltaf minna og minna högg til þess að verða lengi frá keppni. Það hefur orðið mikil vakning í kringum höfuðmeiðsl undanfarið sem er gríðarlega mikilvægt. Við erum orðnar núna þrjár í liðinu sem spilum með svona band," sagði Írunn sem gekk í raðir Þór/KA frá Sjörnunni í vetur og segist ekki sjá eftir því.

„Mér fannst ég þurfa á smá tilbreytingu að halda og fannst Þór/KA liðið spennandi. Það er klárlega ævintýri að flytja norður yfir sumarið svo ég skellti mér á þetta tækifæri. Það var auðvitað erfitt að taka þessa ákvörðun en ég sé ekki eftir því enda hefur sumarið verið algjör snilld hérna á Akureyri. Mér líður mjög vel hérna á norðurlandinu enda bara snillingar sem ég æfi með á hverjum einasta degi."

Að lokum spurðum við Írunni aðeins út í Pepsi-deildina í ár. Henni finnst lítið hafa komið henni á óvart en hún segir deildina vera meira spennandi að síðustu ár.

„Það sem mér finnst skemmtilegt við deildina í ár er að það er ekkert lið að stinga gjörsamlega af og minni liðin eru að standa í þeim stóru og stela stigum. Allir geta unnið alla," sagði miðjumaðurinn, Írunn Þorbjörg Aradóttir að lokum.

Verbúð 11 gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna fær 15 þúsund króna gjafabréf frá veitingastaðnum Verbúð 11 sem og kassa af Pepsi Max.

Sjá einnig:
Leikmaður 6. umferðar - Elín Metta Jensen(Valur)
Leikmaður 5. umferðar - Berglind Hrund Jónasdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 4. umferðar - Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik)
Leikmaður 3. umferðar - Lauren Elizabeth Hughes (Selfoss)
Leikmaður 2. umferðar - Jeannette Williams (FH)
Leikmaður 1. umferðar - Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner