Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fös 08. júlí 2016 09:15
Arnar Daði Arnarsson
Best í 6. umferð: Stökk út í óvissuna
Elín Metta Jensen (Valur)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér fannst við sýna mikinn karakter með því að koma svona ákveðnar til leiks, tilbúnar að svara fyrir svekkjandi úrslit í síðustu umferð," segir sóknarmaðurinn Vals, Elín Metta Jensen.

Elín Metta er leikmaður 6. umferðar í Pepsi-deild kvenna hjá Fótbolta.net en hún skoraði þrennu og lagði upp eitt í stórsigri Vals á Þór/KA, 6-1 á heimavelli.

Spilamennskan heilt yfir góð
„Mér fannst við ná að spila góðan fótbolta, við héldum boltanum vel innan liðs og vorum ekki að reyna að þvinga boltanum. Síðan fannst mér viðhorfið hjá leikmönnum fyrir leik til fyrirmyndar, sterkir karakterar innan hópsins stigu upp og reyndu að smita aðra leikmenn af jákvæðni og vilja," segir Elín sem viðurkennir að sigurinn hafi verið töluvert stærri en hún hafi búist við.

„Stelpurnar í Þór/KA hafa sýnt það að þær eru með virkilega gott lið og hafa margar frábærar fótboltakonur innan sinna raða. Þannig að ég get ekki sagt það að maður hafi búist við svona stórum sigri."

Elín Metta segir að leikurinn gegn Þór/KA hafi verið besti leikur Vals í sumar.

„Mér finnst spilamennskan hafa verið frekar góð svona heilt yfir hjá okkur í sumar. Það sem skipti kannski máli var að mörkin komu í þessum leik og mörk breyta leikjum. Við höfum brennt okkur á því í sumar að vera komnar yfir en ekki náð að klára leikina og það var mjög ánægjulegt að sjá hversu samhentar við vorum í því að breyta nálguninni okkar á það," segir Metta sem segist hafa verið ánægð með eigin frammistöðu í leiknum.

Henni finnst spilamennskan hjá Val hafa verið góð á köflum í sumar.

„Stundum hefur vantað upp á ákvarðanatökur hjá okkur en ég tel að eftir því sem við slípum okkur betur saman og leikmenn fari að læra betur inn á hvorn annan sé það eitthvað sem við getum bætt ofan á hitt."

Galopið mót
„Við höfum gert þær kröfur á okkur í hverjum einasta leik að ná í þrjú stig. Það hefur ekki gengið eftir þannig við erum kannski ekki ánægðar með það. En aftur á móti hefur deildin þróast þannig að þessi stigasöfnun hingað til dugir til að halda okkur inní þessu móti, sem er jákvætt," segir Elín en Valur er með 11 stig í 3. sæti deildarinnar að loknum sex umferðum. Elín segir fátt hafa komið henni á óvart í deildinni það sem af er.

„Þetta mót er náttúrulega ennþá galopið og gaman að sá hvernig bilið á milli liðanna er að minnka. Deildin hefur sjaldan verið jafn sterk og maður finnur það alveg. Ég veit ekki hvort eitthvað hafi komið manni á óvart nema helst hvað gervigrasið á Hlíðarenda er næs."

Kom á óvart hversu stórt þetta var
Elín Metta kláraði í vor sitt fyrsta ár í Florida State University, háskólanum í Bandaríkjunum. Hún segir að hún hafi lært heilmikið á fyrsta árinu ytra og margt hafi komið henni á óvart.

„Ég stökk svolítið út í óvissuna í Bandaríkjunum. Ég var alveg með það á hreinu að sama hvernig yrði þar þá yrði það eitthvað sem ég gæti bara grætt á sem knattspyrnukona en líka sem manneskja. Það var hálfgert "madness" að stökkva inní þetta "student-athlete"-líf og það kom mér alveg á óvart hversu stórt þetta var."

„Svona fótboltalega séð var ég komin í umhverfi sem bauð manni uppá að læra helling og ég held að ég hafi náð að bæta mig eitthvað þarna úti. Ég var mjög spennt að koma heim og sjá hvernig hægt var að bæta því sem ég lærði þar, inn í leikinn minn hérna heima. Það er klárlega öðruvísi að koma heim í Pepsi-deildina eftir að hafa verið úti allan veturinn. Það er mjög mikill sjarmi yfir þessari deild hérna heima og maður fékk svolítið nýja sýn á hana með því að prófa nýtt umhverfi,"
sagði Elín Metta Jensen að lokum.

Verbúð 11 gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna fær 15 þúsund króna gjafabréf frá veitingastaðnum Verbúð 11 sem og kassa af Pepsi Max.

Sjá einnig:
Leikmaður 5. umferðar - Berglind Hrund Jónasdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 4. umferðar - Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik)
Leikmaður 3. umferðar - Lauren Elizabeth Hughes (Selfoss)
Leikmaður 2. umferðar - Jeannette Williams (FH)
Leikmaður 1. umferðar - Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)


Athugasemdir
banner