Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 17. maí 2016 08:30
Arnar Daði Arnarsson
Best í 1. umferð: Gullvagninn var frábær
Harpa Þorsteinsdóttir - Stjarnan
Harpa Þorsteinsdóttir er leikmaður 1. umferðar.
Harpa Þorsteinsdóttir er leikmaður 1. umferðar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harpa í baráttunni í leiknum.
Harpa í baráttunni í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
„Sjálfstraustið jókst eftir fyrsta markið. Ég er frekar meðvituð um að ég eigi að skora og leggja upp mörk og það var mikilvægt að ná inn einu sem fyrst í mótinu, svo fékk ég hin mörkin nánast á silfurfati frá liðsfélögunum," sagði Harpa Þorsteinsdóttir, leikmaður Stjörnunnar sem skoraði þrennu í 4-0 sigri liðsins á Þór/KA í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna.

Hún er leikmaður umferðarinnar að mati Fótbolta.net og fær að launum gjafabréf á Verðbúðin 11 Lobster and stuff.

„Spilamennska liðsins var mjög góð, við lásum þeirra leik, gáfum fá færi á okkur og gátum refsað annars góðu liði Þór/KA með fjórum mörkum. Það var samt vorbragur á okkur sérstaklega í fyrri hálfleik og það er margt sem við getum enn lagað í byrjun móts," sagði Harpa sem sagði þetta langt í frá að vera auðveldan leik þó svo að tölurnar hafi sagt annað.

„Fyrsti leikur snýst um að ná spennustiginu réttu og þar höfðum við yfirhöndina. Þær eru með mjög vel spilandi lið og þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur."

Harpa vildi hrósa stuðningsmönnum Stjörnunnar og þá sérstaklega Gullvagninum sem studdu vel við bakið á Stjörnuliðinu úr stúkunni.

„Gullvagninn var frábær. Þessar efnilegu stelpur sem koma á alla leiki hjá okkur eru alveg einstakar. Þær hafa verið frábærar í stúkunni og byrjuðu mótið heldur betur með stæl," sagði Harpa sem segir tímabilið lofa góðu.

„Það eru nokkur lið sem stefna á titilinn og það er meiri breidd en hefur verið. Einnig er meiri metnaður í umgjörðinni og með aukinni umfjöllun ætti þetta að verða frábært sumar fyrir knattspyrnuhreyfinguna í heild. Það er svo ómögulegt að segja á þessum tímapunkti hvernig deildin kemur til með að spilast en það verða fleiri óvænt úrslit en við erum vanar."

Harpa segir að markmið liðsins fyrir sumarið séu skýr.
„Við höfum haft markmiðasetningarfundi og erum með okkar markmið skýr bæði til styttri og lengri tíma. En við tökum einn leik fyrir í einu. Næsti leikur er alltaf mikilvægasti leikurinn og næst er það Selfoss á erfiðum útivelli."

„Ég bind miklar vonir við að Gumma (Guðmunda Brynja Óladóttir) og félagar á vellinum þar, því völlurinn á Selfossi hefur verið næstum jafngóður og Samsungvöllurinn undanfarin ár. En það kemur ekkert lið á Selfoss og fær eitthvað gefins. Það eru þrjú stig í boði og við þurfum að vera komnar niður á jörðina frá síðasta leik til þess að eiga möguleika á þeim," sagði leikmaður 1. umferðar í Pepsi-deild kvenna, Harpa Þorsteinsdóttir að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner