Fiorentina missti Federico Chiesa til Juventus og Jordan Veretout til Roma en félagið er búið að krækja í nokkra leikmenn til að fylla í skörðin.
Spænski kantmaðurinn Jose Callejon kemur til félagsins á frjálsri sölu eftir að hafa runnið út á samningi hjá Napoli. Hann reyndist algjör lykilmaður frá komu sinni til félagsins.
Callejon var hjá Real Madrid á upphafi síðasta áratugar og skoraði 20 mörk í 77 leikjum. Napoli fékk hann á gjafaprís sumarið 2013 og hefur hann varla misst af leik á tíma sínum hjá félaginu. Að meðaltali hefur Callejon verið að spila 50 leiki á tímabili hjá Napoli, hann hefur gert 82 mörk í 349 leikjum fyrir félagið.
Nú er Callejon orðinn 33 ára gamall, 34 í febrúar, og mun væntanlega taka stöðu Chiesa á hægri kanti Fiorentina. Hann skrifar undir tveggja ára samning með möguleika á eins árs framlengingu verði ákveðnum skilyrðum mætt.
Hann er þó ekki eini leikmaðurinn sem félagið nældi sér í í gær því miðvörðurinn Lucas Martínez Quarta skrifaði undir fimm ára samning. Hann kemur í raðir Fiorentina frá argentínska stórveldinu River Plate.
Ítalska félagið er talið borga 6 milljónir evra fyrir Quarta sem er 24 ára gamall og spilaði tvo A-landsleiki með Argentínu í fyrra. Quarta á yfir 100 leiki að baki fyrir River Plate.
Þá krækti félagið einnig í Antonio Barreca á lánssamningi frá Mónakó. Barreca er vinstri bakvörður sem þekkir vel til í ítalska boltanum eftir að hafa leikið fyrir Torino, Cagliari og Genoa í efstu deild.
Barreca var lánaður til Newcastle í janúar í fyrra en kom aðeins við sögu í einum leik.
Fyrr í sumar krækti Fiorentina í afar öfluga leikmenn, þar á meðal fjóra miðjumenn. Borja Valero (Inter) og Giacomo Bonaventura (Milan) komu á frjálsri sölu á meðan Fiorentina borgaði tæpar 40 milljónir evra fyrir Sofiane Amrabat (Parma), Alfred Duncan og Pol Lirola (Sassuolo).
Athugasemdir