Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 06. nóvember 2020 15:25
Elvar Geir Magnússon
Eiður Smári aðalþjálfari FH (Staðfest) - Davíð aðstoðar og Logi ráðgjafi
Logi Ólafsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Logi Ólafsson og Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Davíð Þór Viðarsson er nýr aðstoðarþjálfari FH.
Davíð Þór Viðarsson er nýr aðstoðarþjálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Knattspyrnudeild FH hefur komist að samkomulagi við Eið Smára Guðjohnsen um að taka við sem aðalþjálfari Fimleikafélagsins, samningurinn er til tveggja ára.

Davíð Þór Viðarsson, fyrrum fyrirliði FH, verður aðstoðarþjálfari Eiðs og Logi Ólafsson mun verða í starfi tæknilegs ráðgjafa.

Logi og Eiður tóku við FH á miðju tímabili og undir þeirra stjórn hefur árangurinn verið góður. Liðið hafnaði í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar.

„Eiður Smári sem er án vafa besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi og hefur leikið fyrir stærstu lið Evrópu, tók við FH liðinu ásamt Loga Ólafssyni um miðjan júlí og undir þeirra stjórn hafnaði liðið í 2. sæti með 36 stig þegar fjórar umferðir voru enn óleiknar;" segir í tilkynningu FH.

FH var einnig komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins. FH vann tíu af fjórtán leikjum liðsins undir stjórn Eiðs og Loga í Pepsi Max deildinni.

Davíð stígur sín fyrstu skref í þjálfun
Davíð Þór þarf ekki að kynna fyrir stuðningsmönnum FH og knattspyrnuáhugafólki almennt, einn besti leikmaður FH frá upphafi sem mun stíga sín fyrstu skref í þjálfun undir stjórn Eiðs.

Davíð vann sjö Íslandsmeistaratitla með FH, fjórum sinnum sem fyrirliði liðsins. Davíð spilaði 319 leiki fyrir FH og skoraði í þeim ellefu mörk.

Logi Ólafsson hefur komið víða við á sínum magnaða ferli og unnið tvo Íslandsmeistaratitla. Þessi fyrrum landsliðsþjálfari, aðstoðarþjálfari Lilleström og þjálfari FH mun vera áfram innan þjálfarateymisins en með breyttum áherslum.

Logi mun taka við nýju starfi sem tæknilegur ráðgjafi FH og mun hann m.a. vinna að stefnumótun og skipulagningu alls afreksstarfs félagsins sem heldur utan um efnilegustu leikmenn félagsins í karla og kvennaflokki.

Fjalar Þorgeirsson mun áfram starfa sem markmannsþjálfari meistaraflokks karla ásamt því að Hákon Hallfreðsson mun áfram sjá um styrktarþjálfun liðsins.

Guðlaugur Baldursson hættur hjá FH
Á sama tíma mun Guðlaugur Baldursson láta af störfum sem aðstoðarþjálfari.

„Guðlaugur hefur hingað til unnið þrjá Íslandsmeistaratitla sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og eru honum þökkuð vel unnin störf síðastliðin tvö tímabil hjá FH og félagið óskar Lauga velfarnaðar í hans næstu verkefnum," segir í tilkynningu FH.

„Markmið FH eru skýr með þessum ráðningum, að byggja ofan á þann góða árangur sem náðist á síðasta tímabili og bæta enn frekar allt faglegt starf félagsins til lengri tíma."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner