lau 28. desember 2019 21:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jardim rekinn frá Mónakó - Moreno tekur við (Staðfest)
Roberto Moreno.
Roberto Moreno.
Mynd: Getty Images
Portúgalinn Leonardo Jardim hefur verið rekinn úr starfi sínu sem þjálfari Mónakó. Spánverjinn Roberto Moreno er tekinn við af honum.

Jardim tók við Mónakó af Thierry Henry í janúar á þessu ári. Jardim hafði það sama tímabil verið rekinn frá félaginu eftir slaka byrjun á tímabilinu og Henry ráðinn. Jardim var ráðinn aftur og forðaði liðinu frá falli.

Jardim er 45 ára og stýrði hann liðinu á eftirminnilegri 2016/17 leiktíð. Mónakó vann frönsku úrvalsdeildina það tímabil og komst einnig í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Moreno, sem tekur við af Jardim, gerði frábæra hluti við stjórn spænska landsliðsins eftir að Luis Enrique hvarf frá starfinu vegna veikinda dóttir sinnar. Dóttir Enrique lést í ágúst.

Enrique tók aftur við landsliðsþjálfarastarfinu í síðasta mánuði. Moreno var aðstoðarþjálfari Enrique en hann hélt því starfi ekki.

Enrique sagði að Moreno hefði svikið sig.

Mónakó er í sjöunda sæti frönsku úrvalsdeildarinnar, en næsti leikur liðsins er gegn toppliði PSG þann 12. janúar.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner