Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 30. ágúst 2021 15:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sér ekki Fylki vinna fleiri leiki á tímabilinu með þessa þjálfara
Fylkir tapaði 7-0 fyrir Breiðablik í gær.
Fylkir tapaði 7-0 fyrir Breiðablik í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson.
Ólafur Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir tapaði 7-0 gegn Breiðabliki er liðin áttust við í Pepsi Max-deild karla í gærkvöld.

Lestu um leikinn: Fylkir 0 -  7 Breiðablik

Útlitið er ekki gott hjá Fylki núna og er liðið í fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Mér fannst kaupin spennandi, mér fannst þjálfararnir spennandi og þjálfurum í deildinni fannst þjálfararnir spennandi," sagði Tómas Þór Þórðarson í Innkastinu.

„Það hefur snúist núna. Fótboltinn sem þeir spila er stórfurðulegur. Þessi inndregni bakvörður kemur ekki við boltann, þeir geta ekki varist til að bjarga lífi sínu og þeir geta ekki skorað til að bjarga lífi sínu. Það er engin trú. Það eru sprækir strákar fram á við sem geta ekki gefið sendingu á síðasta þriðjungi vallarins. Svo mætir Atli Sveinn í viðtal eftir 7-0 tap og segir 'shit happens'. Ég á ekki orð."

Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Stígsson þjálfa Fylki saman. Er þeirra tími á enda með liðið?

„Það væri ekki altvitlaust í þessari stöðu. Þá er ég ekki að kasta rýrð á núverandi þjálfara. Í ljósi stöðunnar er ekki óeðlilegt að fá inn utanaðkomandi menn til að rífa þetta upp. Þeir eiga eftir að fara til Akureyrar og spila við KA, þeir eiga eftir að spila við ÍA úti og taka svo við Valsmönnum á heimavelli," sagði Ingólfur Sigurðsson.

„Þeir eiga ekki möguleika gegn Val og KA, ekki séns. Ég held að þeir hafi fallið í gær út af sigri HK. Ég sé þá ekki vinna leik það sem eftir er, alla vega ekki undir stjórn þessara þjálfara. Ég reyni að forðast það að kalla eftir einhverjum hausum. Þeir voru aldrei að fara að vinna Breiðablik en þeir tóku ekki þátt í þessum fótboltaleik... það verður einhver að koma þarna inn í síðustu þrjá leikina."

Það er landsleikjagluggi framundan og fær Fylkir tvær vikur til að undirbúa næsta leik. „Ef ég væri Árbæingur, þá myndi ég krefjast svara. Þið verðið að segja fólki af hverju þeir eru áfram," sagði Tómas.

Rúnar Páll Sigmundsson, fyrrum þjálfari Stjörnunnar, var nefndur til sögunnar í Innkastinu, það var talað um að hann gæti tekið við starfinu.

„Miðað við það sem ég hef heyrt af Rúnari Páli frá mjög góðum mönnum, þá er þetta akkúrat verkefnið fyrir hann. Hann er geggjaður 'gameday motivator'," sagði Tómas.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þá hefur Fótbolti.net ekki fengið nein svör úr Árbænum með þjálfaramálin þar.

Hægt er að hlusta á allt Innkastið hér að neðan.
Innkastið - Kraumar í Laugardal, Fylkiskrísa og Blikar óstöðvandi
Athugasemdir
banner
banner
banner