Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   fim 01. desember 2016 18:19
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Morgunblaðið 
Eiður Smári: Ákveð í janúar hvort ég held áfram
Eiður Smári Guðjohnsen í landsleik gegn Frakklandi.
Eiður Smári Guðjohnsen í landsleik gegn Frakklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári Guðjohnsen, einn besti leikmaður Íslands frá upphafi, segir í viðtali við Guðmund Hilmarsson, blaðamann Morgunblaðsins, að hann ætli að taka ákvörðun í janúar um hvort hann haldi áfram að spila.

Eiður er orðinn 38 ára en hann er nú í endurhæfingu eftir meiðsli sem komu í veg fyrir að hann gæti spilað með Pune City í indversku Ofurdeildinni eftir að hafa samið við félagið.

„Ef ég verð alveg heill heilsu og hef löngun til að spila þá er ég meira en til í að halda áfram að spila fótbolta. Neistinn er enn til staðar og ég er alveg viss um að löngunin til að spila fótbolta mun aldrei hætta hjá mér. Það er erfiðara að taka ákvörðun þegar maður er meiddur og finnur ekki hvar maður stendur en ég ætla að láta reyna á þetta og sé svo til hvort ég hafi eitthvað upp á að bjóða," segir Eiður við Morgunblaðið.

Aðspurður segist Eiður opinn fyrir því að spila í Bandaríkjunum en hann svo gott sem útilokar að spila aftur á Íslandi.

„Gervigras er alveg út úr myndinni hjá mér út af þessum meiðslum þannig að það er erfitt að undirbúa sig á Íslandi fyrir sumarið," segir Eiður sem mun starfa við fótboltagreiningar í sjónvarpi á Englandi og í Katar meðan hann jafnar sig á meiðslunum.

Eiður var spurður að því hvort landsliðsferlinum væri lokið?

„Ég held að það gefi augaleið að ég hafi spilað minn síðasta landsleik,« sagði Eiður Smári og hló og hafði engu við svar sitt að bæta.
Athugasemdir
banner
banner