Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   mið 07. febrúar 2018 12:30
Magnús Már Einarsson
Af hverju eru kínversk félög hætt að kaupa stórstjörnur?
Tevez horfði á það sem frí að fá himinhá laun og spila fótbolta í Kína.
Tevez horfði á það sem frí að fá himinhá laun og spila fótbolta í Kína.
Mynd: Getty Images
Javier Mascherano er mættur í kínverska boltann.
Javier Mascherano er mættur í kínverska boltann.
Mynd: Getty Images
Landslið Kína er í 70. sæti á heimslista FIFA.
Landslið Kína er í 70. sæti á heimslista FIFA.
Mynd: Getty Images
Fyrir ár síðan kepptust félög í kínversku ofurdeildinni við að fá öfluga leikmenn til sín fyrir háar fjárhæðir. Shainghai SIPG keypti Oscar frá Chelsea á 60 milljónir punda og leikmenn eins og Hulk, Alex Teixeira, Axel Witsel og Jackson Martinez gengu einnig til liðs við félög í Kína. Fyrir höfðu leikmenn eins og Carlos Tevez, Ezequiel Lavezzi, Graziano Pelle og Ramires mætt í kínverska boltann.

Í dag er öldin önnur en fá stór nöfn hafa farið til Kína fyrir komandi tímabil á meðan erlendir leikmenn hafa horfið úr deildinni. BBC skoðar málið í áhugaverðri grein í dag.

100% skattur á kaupverði
Nýjar reglur um erlenda leikmenn hafa gert félögum erfitt fyrir þegar kemur að því að kaupa leikmenn.

Búið er að setja 100% skatt á kaupverð á erlendum leikmönnum en kínverska knattspyrnusambandið vill með þessu að félög reyni frekar að ala upp öfluga leikmenn frekar en að kaupa þá frá Evrópu.

Tianjin Quanjian vildi fá Diego Costa frá Chelsea áður en hann gekk í raðir Atletico Madrid. Tianjin ætlaði að kaupa Costa á 64 milljónir pudna en með 100% skattinum hefði kaupverðið orðið 128 milljónir punda og því ákvað félagið að hætta við.

Þessi breyting gerir það að verkum að kínversk félög horfa frekar á leikmenn á efri árum ferilsins þegar kemur að því að kaupa leikmenn því að kaupverðið er ekki jafn hátt fyrir þá.

Hinn 33 ára gamli Javier Mascherano er dæmi um það en Hebei China Fortune keypti hann á tæpar níu milljónir punda frá Barcelona á dögunum.

Launin ennþá há
Sum félög hafa reynt að nýta sér krókaleiðir til að kaupa leikmenn. Beijing Guoan keypti Cedric Bakambu frá Villarreal á 35,7 milljónir punda en sögusagnir eru um að leikmaðurinn hafi sjálfur keypt upp samning sinn á Spáni til að Guaon þyrfti ekki að borga 100% skatta af kaupverðinu. Kínverska knattspyrnusambandið er nú að skoða málið.

Laun erlendra leikmanna eru ennþá mjög há í Kína en á síðasta tímabili fékk Carlos Tevez 615 þúsund pund í laun á viku, Oscar 400 þúsund pund, Graziano Pelle 290 þúsund pund og Ramires 200 þúsund pund.

Þrátt fyrir að hafa verið öflugir í Evrópu og fá gríðarlega vel borgað í Kína þá slá ekki allir leikmenn í gegn þar í landi. Carlos Tevez gerði lítið hjá Shanghai Shenhua áður en hann samdi við Boca Juniors fyrir nokkrum vikum. Tevez sagðist sjálfur bara hafa litið á dvöl sína í Kína sem frí.

Skylda að spila ungum Kínverjum
Annað sem hefur áhrif á fækkun erlendra stórstjarna í Kína er önnur regla sem kínverska knattspyrnusambandið hefur sett.

Þrír erlendir leikmenn mega vera í byrjunarliði í hverjum leik núna en ekki fjórir líkt og áður.

Þá verða jafnmargir kínverskir leikmenn undir 23 ára aldri að vera inn á og erlendir leikmenn. Þetta á að ýta undir að félög láti efnilega leikmenn spila.

Áður var reglan þannig að skylda var að hafa að minnsta kosti einn kínverskan leikmann undir 23 ára aldri í byrjunarliðinu. Sum félög fóru í kringum þá reglu og skiptu ungum leikmönnum af velli eftir nokkrar mínútur í leikjum sínum!

Kínverska knattspyrnusambandið vonast til að þessar reglubreytingar gefi kínverskum leikmönnum meira tækifæri og styrki um leið landsliðið.

Smelltu hér til að lesa grein BBC í heild
Athugasemdir
banner
banner
banner