Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fim 12. maí 2016 10:00
Arnar Daði Arnarsson
Hólmbert: Hefði verið gaman að kljást við Guðmann
Hólmbert Aron
Hólmbert Aron
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Stórleikur 3. umferðar í Pepsi-deild karla er að öllum líkindum leikur KR og FH sem fram fer á Alvogen-vellinum í Vesturbænum í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 20:00 og verður leikurinn í beinni á Stöð 2 Sport.

Sóknarmaður KR-inga, Hólmbert Aron Friðjónsson kom ekkert við sögu 2-2 leik liðsins gegn Þrótti R. í síðustu umferð. Hann hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli.

„Standið á mér er fínt. Ég er að vinna í því að ná mér heilum og það gengur mjög vel," sagði Hólmbert Aron í samtali við Fótbolta.net.

KR-ingar hafa gert tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjunum.

„Leikurinn á móti Víkingum var ekki mikið fyrir augað. Völlurinn var erfiður og svo bætist við mikill vindur í seinni hálfleik sem gerði þetta mjög erfitt fyrir leikmenn."

„Leikurinn á móti Þrótti fannst mér vera frekar fínn hjá okkur fyrir utan mörkin sem við fáum á okkur. Við fengum fullt af færum sem við hefðum átt að nýta betur en stundum er það nú bara þannig," sagði Hólmbert sem segir liðið eiga nóg inni.

„Lykilmenn eru að koma úr meiðslum sem þéttir hópinn mun meira þannig ég er mjög bjartsýnn á framhaldið."

Hólmbert segir að liðið þurfi að halda áfram að spila sinn leik og þá fara sigrarnir að detta í hús.

„Völlurinn verður kannski eilítið betri en á móti Víkingum en ég held að hann muni hafa smá áhrif á bæði lið. En baráttuleikur verður þetta í 90 mínútur plús og við þurfum að mæta í þá baráttu frá fyrstu mínútu."

Það muna eflaust einhverjir eftir leik FH og KR í Kaplakrikavellinum í fyrra og þá sérstaklega eftir nokkur návígi milli Hólmberts Arons og Guðmanns Þórissonar þáverandi varnarmann FH. FH-ingar lánuðu Guðmann til KA rétt fyrir mót og því fær Hólmbert ekki að kljást við Guðmann í kvöld.

„Ég mun sakna þess klárlega. Hann er mjög flottur leikmaður og erfitt við hann að eiga. Það kom mér persónulega mjög á óvart að þeir hefðu sleppt honum í KA. Það hefði verið mjög gaman að kljást við hann sérstaklega eftir einvígið í fyrra."

Hólmbert er alltaf tilbúinn til að sjá fleiri KR-inga á vellinum, þó svo að hann hafi verið ánægður með mætinguna í fyrstu tvo leikina.

„Mætingin hefur verið flott og fín stemning. Ég hvet samt alltaf fleiri og fleiri til að mæta það er alltaf skemmtilegra. Þetta eru alltaf risa leikir þegar þessi tvö lið mætast enda bæði liðin að berjast upp á titla síðustu ár," sagði Hólmbert Aron Friðjónsson að lokum í samtali við Fótbolta.net.

Í kvöld:
18:00 ÍBV-Víkingur Ó. (Hásteinsvöllur)
19:15 Valur-Fylkir (Valsvöllur)
19:15 ÍA-Fjölnir (Norðurálsvöllurinn)
19:15 Stjarnan-Þróttur R. (Samsung völlurinn)
20:00 KR-FH (Alvogenvöllurinn)

Föstudagur 13. maí
20:00 Breiðablik-Víkingur R. (Kópavogsvöllur)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner