Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 22. desember 2020 12:38
Elvar Geir Magnússon
„Hissa á að Chelsea hafi ekki viljað Eið strax"
Valdimar Svavarsson, formaður FH.
Valdimar Svavarsson, formaður FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valdimar Svavarsson, formaður FH, segir að í Kaplakrika hafi menn vitað að líklegt væri að stórt nafn eins og Eiður Smári Guðjohnsen yrði eftirsóttur.

Eiður Smári var ráðinn sem aðalþjálfari FH í byrjun nóvember en nú hefur hann látið af störfum til að vera aðstoðarmaður Arnars Þórs Viðarssonar hjá íslenska landsliðinu.

„Við vorum meðvitaðir um hvað gæti gerst og við höfum sett okkar teymi þannig upp að við værum tilbúnir undir ýmislegt. Okkar plan er það sama. Við ætlum að ná í Íslandsmeistaratitilinn á næsta ári og hafa gaman að þessu," segir Valdimar. Hann segir að ekki hafi verið hægt að standa í vegi fyrir Eiði þegar sóst er eftir kröftum hans í íslenska landsliðið.

Logi Ólafsson tekur aftur við stjórnartaumunum eftir að Eiður var ráðinn í A-landsliðið.

„Við gerðum okkur grein fyrir því að Eiður myndi líklega verða eftirsóttur og erum í raun hissa á að Chelsea hafi ekki viljað fá hann strax!" segir Valdimar kíminn en Eiður átti farsælan feril hjá Chelsea eins og allir lesendur vita.

„Það var smá aðdragandi að þessu og við náðum góðu samkomulagi við alla við borðið; KSÍ, Eið og Loga. Þetta er pakki sem var búið að undirbúa í smá tíma og lokaðist. Það er mjög gott."

Logi, sem er 65 ára, tók við FH síðasta sumar eftir að Ólafur Kristjánsson var ráðinn í Danmörku. Í útvarpsþættinum Fótbolti.net í október var Logi spurður að því hvort hann hefði áhuga á að halda áfram sem þjálfari FH.

„Mér hefur þótt þetta rosalega gaman. Ég var ekki að sækjast eftir neinni þjálfun þegar þetta kemur upp. Ég hef bara hrifist með. Það er gaman að vera í kringum þetta og taka þátt í þessu. Þetta byggist allt á samtölum. Það hefur ekkert verið ákveðið enn," sagði Logi þann 24. október.
Athugasemdir
banner
banner