Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
banner
   mið 20. febrúar 2008 13:10
Þórður Már Sigfússon
Heimild: iBergen 
Kristján Örn orðaður við Charlton
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Útsendari á vegum enska 1. deildarliðsins Charlton mun fylgjast með Kristjáni Erni Sigurðssyni, varnarmanni Brann, í leik liðsins gegn Everton í Evrópukeppni félagsliða annað kvöld. Norskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag.

Samkvæmt vefmiðlinum iBergen hafa forráðamenn Charlton fylgst grannt með Kristjáni Erni um nokkurt skeið og hefur Alan Pardew, stjóri félagsins, áhuga á að næla í Akureyringinn nái liðið að vinna sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á nýjan leik í vor.

Charlton er sem stendur í fimmta sæti ensku 1. deildarinnar.

Talsmaður Charlton staðfesti í samtali við iBergen að útsendari á vegum félagsins hafi verið á heimavelli Brann í haust til þess að fylgjast með ónafngreindum leikmanni en vildi ekki tjá sig nánar um það.

Samkvæmt heimildum iBergen var Kristján Örn sá leikmaður.

Roald Bruun-Hanssen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Brann, segir það ekki koma sér á óvart hversu eftirsóttur leikmaður Kristján Örn sé orðinn.

,,Krissy er góður leikmaður og það er vitað mál að það er áhugi í kringum hann. Það kemur mér ekki á óvart að ensk félagslið séu að fylgjast með honum en samt sem áður hefur engin fyrirspurn borist í hann enn sem komið er,” sagði Bruun-Hanssen.

Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Kristjáns Arnar, staðfesti að mikill áhugi sé fyrir hendi á leikmanninum en vildi ekki gefa upp hvaða lið væru að bera víurnar í skjólstæðing hans.

,,Það eina sem ég get sagt er að það eru nokkur lið að fylgjast með honum.”

Eins og Fótbolti.net greindi frá í vikunni fylgdist útsendari frá Aston Villa með Kristjáni í leiknum gegn Everton í síðustu viku og eftir því sem heimildir okkar í Noregi herma mun félagið einnig fylgjast grannt með honum á morgun.

Kristján Örn var á mála hjá Stoke City í Englandi fyrir fáeinum árum.
Athugasemdir
banner
banner