Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fös 09. júní 2017 17:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 2. deild: Væri galið að ég færi að sanka að mér verðlaunum
Leikmaður 5. umferðar - Hjörtur Geir Heimisson (Magni)
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Markvörður Magna frá Grenivík, Hjörtur Geir Heimisson átti stórleik í 2-1 sigri liðsins gegn Tindastól á útivelli í 5. umferð 2. deildarinnar.

Hann er leikmaður umferðarinnar en þetta er í annað skiptið í sumar sem leikmaður Magna hreppir þennan titil en liðið situr í 2. sæti deildarinnar með 13 stig.

„Þetta var hörkuleikur gegn góðu liði Tindastóls. Við byrjum leikinn betur að mínu mati. Við náum að skora snemma og vorum pínu aular að vera ekki komnir í 2-0 eftir 20 mínútur. Fljótlega eftir markið slökum við svo á og þeir taka yfir leikinn og ná að pota inn einu marki," sagði Hjörtur Geir aðspurður út í leikinn gegn Stólunum en Pétur Heiðar Kristjánsson skoraði sigurmarkið fyrir Magna í uppbótartíma.

„Seinni hálfleikurinn var járn í járn en með smá heppni og miklum klókindum náum við svo að skora glæsilegt mark undir lok leiksins," sagði Hjörtur sem var ánægður með sinn leik í leiknum.

„Að mestu leyti en það er auðvitað alltaf svekkjandi að ná ekki að halda hreinu."

„Ég get ekki sagt að staðan sé framari en björtustu vonum. Björtustu vonir voru að vera með 15 stig eftir fimm leiki en við erum ánægðir með stiga söfnunina hingað til," sagði markvörðurinn knái, en af fyrstu fimm leikjunum hefur Magni spilað fjóra á útivelli.

„Þetta er sérstakt. Sérstaklega í ljósi þess að á síðasta tímabili þá vinnum við aðeins einn útileik og náum samtals í átta stig á útivelli en núna erum við komnir með 10 stig á útivelli og stefnum á fleiri," sagði Hjörtur Geir sem skafar ekkert af því þegar hann er spurður út í markmið liðsins.

„Okkar markmið fyrir sumarið var eins og margra annarra liða í þessari deild að gera atlögu að efstu tveim sætunum. En þessi deild er svo jöfn að það má ekki mikið klikka til að það markmið endi einhverstaðar í hafinu."

„Heimavöllurinn virðist telja mikið í deildinni. Ég held það séu bara sex útisigrar í fyrstu fimm umferðunum."

Markvörðurinn starfar hjá Eyjabita en karl faðir hans á Eyjabita sem eru aðalstyrktaraðilar Draumaliðsdeildar Fótbolta.net og Eyjabita.

„Ég bjó mér til lið og hefur Sigurður Egill Lárusson (leikmaður Vals) verið að hala inn mestum stigum fyrir mig. En hann er reyndar sá eini sem hefur verið að fá eitthvað af stigum í mínu liði, sem er kannski ágætt því það væri galið að ég færi að sanka að mér einhverjum verðlaunum í þessu," sagði leikmaður 5. umferðar í 2. deildinni að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
4. umferð - Stefán Birgir Jóhannesson (Njarðvík)
3. umferð - Andri Fannar Freysson (Njarðvík)
2. umferð - Kristján Atli Marteinsson (Magni)
1. umferð - Sæþór Olgeirsson (Völsungur)
Athugasemdir
banner
banner
banner