Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 16. febrúar 2019 15:30
Ívan Guðjón Baldursson
Ribery: Ég átti að vinna Gullknöttinn 2013
Ribery hefur spilað 412 keppnisleiki fyrir Bayern og 81 leik fyrir Frakkland.
Ribery hefur spilað 412 keppnisleiki fyrir Bayern og 81 leik fyrir Frakkland.
Mynd: Getty Images
Franck Ribery segist ekki ennþá vera búinn að melta að hafa ekki unnið Gullknöttinn árið 2013, en þá endaði hann í þriðja sæti eftir Cristiano Ronaldo og Lionel Messi.

Kjörið um besta leikmann ársins hefur aldrei verið jafn tæp þar sem Ronaldo fékk 28% atkvæða, Messi tæplega 25% og Ribery rúmlega 23%.

Ribery átti frábært ár 2013 þar sem hann var lykilmaður í liði Bayern sem vann þýsku deildina, bikarinn og Meistaradeildina.

„Ég bjóst við að vinna Gullknöttinn, það er sannleikur. Mér finnst ég hafa átt skilið að vinna enn í dag. Mér hefur ekki enn tekist að melta þetta, ég gerði allt í mínu valdi til að hljóta verðlaunin," sagði Ribery.

„Ég tikkaði í öll boxin. Ég vann allt sem ég gat með Bayern og hefði ekki getað spilað betur sjálfur, þetta var mjög, mjög, mjög stórt ár fyrir mig persónulega. Ég var ekki lakari en Ronaldo eða Messi það árið og upplifði þriðja sætið sem hrikalegt óréttlæti.

„Ég spurði sjálfan mig 10.000 sinnum: 'hvers vegna ekki ég?'. Því meira sem ég hugsaði um það, því mun meiri viðbjóði fann ég fyrir. Ég skildi ekki hvers vegna ég vann ekki."


Þrátt fyrir magnaðan árangur Ribery og Bayern þá skoraði Ronaldo 66 mörk í 56 leikjum fyrir Real Madrid og Portúgal það árið. Ribery var ósáttur með franska knattspyrnusambandið sem hann taldi ekki hafa veitt sér stuðning og lagði landsliðsskóna á hilluna í kjölfarið.

„Það voru til dæmis samherjar og fólk sem hefur vald í franskri knattspyrnu sem vildu ekki sjá mig vinna Gullknöttinn. Þetta er fólk sem hefði getað hjálpað mér í kjörinu."

Ribery er kominn með fimm mörk og eina stoðsendingu í 24 leikjum á tímabilinu. Hann verður 36 ára í apríl.
Athugasemdir
banner
banner
banner