Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 14. apríl 2015 13:30
Magnús Már Einarsson
„Ég hef ekki séð eins eintak og Eið koma fram"
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurbjörn Hreiðarsson.
Sigurbjörn Hreiðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net er með sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Grétar Ægisson kom með spurningu um Eið Smára.

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, spilaði með Eiði Smára hjá Val þegar hann var að stíga fram á sjónarsviðið. Sigurbjörn svaraði spurningunni hér að neðan.

Mín spurning varðar upphafið á ferli Eiðs Smára Guðjohnsen: Hversu efnilegur/góður var Eiður Smári þegar hann skaust fyrst fram á sjónarsviðið með Val í Trópí deildinni þá 15 ára gamall árið 1994 og var talinn einn af betri leikmönnum deildarinnar? Er hann efnilegasti leikmaður sem hefur hefur komið fram hérlendis til þessa? Langar að benda á að á þessum tíma var ég bara smákrakki og naut því ekki við að fylgjast með upphafi okkar besta knattspyrnumanns fyrr og síðar og þ.a.l. langar mig að fotbolti.net ræði við samherja/mótherja eða einhvern sérfræðing sem getur rifjað þetta eftirminnilega sumar upp fyrir mér.
Eiður kom í Val ungur og var auðvitað strax orðinn þekktur bæði fyrir að vera sonur pabba síns og svo auðvitað fyrir hversu lofandi hann var.

Hann var ennþá í 3.flokki þegar hann tók nánast Trópí deildina yfir 1994. Byrjuðum gegn Keflavík og það var hans fyrsti leikur. Þar strax sýndi hann 15 ára gamall að hann ætti í fullu tré við fullorðna karlmenn og trúðu mér þeir voru það í Keflavíkurliðinu. Strax í öðrum leik þá skoraði hann í Eyjum og opnaði sinn reikning í jafntefli. Tryggði okkur svo sigur gegn FH í þriðju umferð og endaði með að vera markahæsti leikmaður liðsins og 9. Markahæsti í Trópídeildinni það ár, og spila alla leikina nema einn, ennþá í 3.flokki! Margir útivistareglubrandarar flugu það ár.

Það gat auðvitað ekki farið framhjá neinum hversu ofboðslega efnilegur/góður hann var þarna hvorki hérlendis né erlendis sem kom á daginn.

Það sem hann hafði var ofboðslegur leiksskilningur, sá leiki fram í tímann með sendingum og hlaupum sem voru einstök, tækni sem var júnik í sendingum, skotum og gat auðvitað þvælt mjög vel og líkamlegir burðir voru nánast eins og þeir eru í dag. Andlega var Eiður gríðarlega sterkur strax, með mjög mikla trú á eigin getu sem hefur skilað því að Eiður er sennilega sá besti sem Ísland hefur átt. Eiður var og er auðvitað mjög skemmtilegur. Það var alltaf hressleiki í kringum hann og hann hafði mikla útgeislun strax. Þú þarft að vera nokkuð öruggur með þig þegar þú mætir inn í meistaraflokks hóp 15 ára og ætlar að láta til þín taka og gerir það!

Ég hef ekki séð eins eintak og Eið koma fram síðan hann var að koma upp. Þrátt fyrir að heils árs aðstæður í dag séu auðvitað hátíð miðað við það sem var í þá daga. Hann hafði bara allan pakkann. Margir hafa verið mjög góðir en ekki eins heilsteyptir leikmenn og hann var. Ég get ekki séð að það komi hér fram leikmaður sem er ennþá í 3.flokki og verði aðal maður liðs í efstu deild, markahæsti leikmaður liðsins og inná topp 10 í deildinni í liði sem endar í topp 4. Reyndar eru mjög efnilegir leikmenn farnir fyrr út en áður svo það kemur kannski aldrei til þess að það reyni á það en hver veit?
Athugasemdir
banner
banner
banner