Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   mið 15. apríl 2015 17:30
Magnús Már Einarsson
Óli Þórðar var degi frá því að missa fótinn
Alvöru nagli.
Alvöru nagli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Læknarnir sögðu að það væri ekkert að mér í fætinum og þetta væri bara í hausnum á mér.
,,Læknarnir sögðu að það væri ekkert að mér í fætinum og þetta væri bara í hausnum á mér.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, var í skemmtilegu viðtali hjá Kjartani Guðmundssyni á Rás 1 um síðustu helgi í þættinum ,,Maður á mann". Ólafur fer yfir víðan völl í viðtalinu og keppnisskap hans skín í gegn.

Í viðtalinu segir Ólafur meðal annars áhugaverða sögu af því þegar hann fótbrotnaði illa í leik í Noregi árið 1991.

,,Mér var vart hugað fótboltalíf eftir þetta. Því fylgdi ákveðin sorgarsaga. Það var læknaklúður og óheppni á sjúkrahúsinu," sagði Ólafur í viðtalinu á Rás 1.

,,Ég fór í alls konar umbúðir og þær voru síðan teknar af mér og settar nýjar umbúðir. Síðan var sagt að fóturinn væri búinn að grófa og ég gæti farið að æfa. Ég gerði það en fann mikið til í fætinum."

,,Læknarnir sögðu að það væri ekkert að mér í fætinum og þetta væri bara í hausnum á mér. Þeir tóku röntgen mynd af mér og sýndu mér að þetta væri allt gróið. Ég hélt áfram að æfa eins og skepna en var alltaf að drepast í löppinni."

,,Ég kvartaði mörgum sinnum í lækninum og fór í 2-3 röntgen myndir en þeir sýndu alltaf það sama.´"


„Hugsaði hvers konar djöfulsins vesalingur ég væri"
Ólafur varð fyrir tæklingu í leik og daginn eftir gat hann ekki farið fram úr þegar hann vaknaði vegna verkja í fætinum. Ólafur mætti enn einu sinni í röntgen myndatöku og þar kom ekkert í ljós frekar en fyrri daginn.

,,Ég hugsaði með mér hvers konar djöfulsins vesalingur ég væri. Þeir hringdu í mig morguninn eftir og vildu fá mig aftur á sjúkrahúsið. Þeim grunaði að það væri ekki allt eins og það ætti að vera og þeir vildu fá mig í sneiðmyndatöku."

,,Þar kom í ljós að 2/3 af beinþykktinni voru ógróin og það var búinn að myndast falskur liður í miðjum leggnum á mér. Ég var búinn að æfa og spila eins og skepna í fleiri mánuði með fingur þykkan sköflunginn á meðan tvær fingurþykktir voru ógrónar. Það var að koma nýtt hné á miðjan legginn á mér,"
sagði Ólafur og hló.

Læknirinn fékk áfall
Ólafur fór í stóra aðgerð um leið og læknar áttuðu sig á gangi mála. Aðgerðin átti þó eftir að draga dilk á eftir sér.

,,Hnéð var opnað og það var borað ofan í legginn og settur tólf mm mergnagli sem náði úr hnénu og alveg niður í ökkla. Honum var splittað með skrúfum sitthvoru megin. Það vildi ekki betur til en að í þessari aðgerð kom sýking í beinmergin á mér. Ég var settur á mjög sterk sýklalyf í 6-8 vikur til að drepa þetta og síðan fór ég að æfa aftur og spila."

,,Ég var alltaf þrútinn í kringum þessar skrúfur en ég hélt áfram að spila. Þegar fór að líða að hausti fannst mér það aukast en hélt að það væri bara álagið. Einn daginn var eins og einhver bankaði í hausinn á mér og segði mér að drífa mig inn á sjúkrahús. Læknirinn fékk áfall þegar hann sá hvað ég var þrútinn í kringum skrúfurnar."


Degi frá því að missa fótinn
Óhætt er að segja að lækninum hafi verið brugðið þegar hann sá ástandið á fætinum já Ólafi. Læknirinn náði í hníf, sprautu og skrúfjárn og tók skrúfuna úr án þess að deyfa Ólaf. Læknirinn náði að ljúka verkinu á hálftíma en Ólafur segir að það hafi verið gífurlega vont.

,,Maður kynntist því virkilega hvað sársauki var þarna," segir Ólafur þegar hann rifjar þetta upp en hann kallar ekki allt ömmu sína.

,,Þegar skrúfan kom út þá stóð buna út á gólfið því að það var svo mikill þrýstingur í beininu. Læknirinn sagði mér að koma strax í aðgerð morguninn eftir og þessar skrúfur og mergnaglinn voru hreinsuð úr beininu."

,,Þegar ég vakna eftir aðgerðina kemur læknirinn til mín og segir að ef ég hefði komið degi seinna þá hefði hann tekið fótinn af mér við hné. Það var gott að einhver bankaði í höfðið á mér nokkrum dögum áður og bjargaði því að ég er ennþá með fótinn."


Eftir aðgerðina var útlitið ekki gott hjá Ólafi en hann neyddist til að hætta í atvinnumennsku erlendis.

,,Læknarnir sögðu að ég myndi aldrei spila fótbolta aftur því að löppin var það illa farin," sagði Ólafur sem afsannaði þau orð því hann varð Íslandsmeistari með ÍA fjögur ár í röð eftir þessi rosalegu meiðsli.

Smelltu hér til að hlusta á þáttinn í heild sinni á Rás 1
Athugasemdir
banner