Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
banner
   mið 30. janúar 2013 11:27
Magnús Már Einarsson
ÍA hættir við að fá Viðar Örn - Skoða Bandaríkjamann
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórður Guðjónsson framkvæmdastjóri ÍA.
Þórður Guðjónsson framkvæmdastjóri ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamenn hafa ákveðið að draga sig úr baráttunni um Viðar Örn Kjartansson framherja Selfyssinga.

Viðar Örn hefur verið á óskalista Skagamanna frá því í haust og í síðustu viku var greint frá því að félagið væri að berjast við Fylki um leikmanninn.

ÍA hefur nú ákveðið að hætta við að fá Viðar og því lítur út fyrir að leikmaðurinn fari í Fylki eða verði áfram hjá Selfyssingum.

,,Við drógum okkur út úr þessu máli," sagði Þórður Guðjónsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍA í samtali við Fótbolta.net í dag.

Skagamenn eru ennþá að leita að liðsstyrk framarlega á vellinum og í morgun kom Samuel Archer til félagsins á reynslu en hann mun meðal annars spila gegn FH í leiknum um 3. sætið á Fótbolta.net mótinu á laugardag.

Samuel getur leikið allar stöður framarlega á vellinum en Skagamenn sáu hann þegar þeir kíktu á leikmenn í Bandaríkjunum í lok síðasta árs hjá Soccerviza, fyrirtæki Joe Funicello leikmanns Þórs.

,,Þetta er einn af þeim sem við sáum í Bandaríkjaferðinni og höfðum áhuga á að skoða frekar," sagði Þórður.

Garðar Bergmann Gunnlaugsson og Jón Vilhelm Ákason gætu verið á leið í aðgerð og það er hluti af ástæðunni fyrir því að skagamenn eru að leita að framherja.

Skagamenn ætla einnig að bæta við sig miðjumanni áður en keppni í Pepsi-deildinni hefst til að fylla skarð Jesper Jensen sem sleit krossband í lok síðasta tímabils.

ÍA mun ekki semja við Iain Williamson sem var á reynslu á dögunum en ekki er búið að taka ákvörðun með Greg McDermott sem var einnig á reynslu fyrr í mánuðinum. Þá eru fleiri miðjumenn einnig í sigtinu að sögn Þórðar.
Athugasemdir
banner
banner