Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar var að vonum gríðarlega svekktur eftir 4-2 tap liðsins gegn Þór í Boganum á Akureyri í dag.
Lestu um leikinn: Þór 4 - 2 Afturelding
„Ég er stoltur af strákunum hvað þeir lögðu mikla vinnu í þetta í seinni hálfleik, það er erfitt að lenda heilan hálfleik manni færri, mér fannst við útfæra leikinn vel í fyrri hálfleik og fá betri færi og skorum tvö góð mörk," sagði Maggi.
Gunnar Bergmann Sigmarsson fékk að líta rauða spjaldið snemma í síðari hálfleik og Afturelding lék manni færri nánast allan síðari hálfleikinn.
„Utan frá finnst öllum þetta örugglega vera rautt spjald en framherji Þórs er búinn að breytast í Usain Bolt ef hann er að fara ná boltanum á undan markmanninum mínum. Hann er aldrei að fara ná næstu snertingu þá er hann ekki að ræna hann upplögðu marktækifæri. Markmaðurinn er eiginlega kominn með boltann þegar þeir skella saman, ég hefði klárlega beðið sjálfur um rautt spjald en ég er ekki viss um að þetta sé réttur dómur hins vegar," sagði Maggi.
„Þegar við komum inn í seinni hálfleikinn var ég bjartsýnn en auðvitað breytir þetta rauða spjald taktinum í leiknum en ótrúlega svekkjandi niðurstaða þrátt fyrir það."