„Það er rosalega gott að fara héðan með þrjú stig. Þetta er erfiður útivöllur gegn mjög sterku liði Víkings. Þær eru vel skipulagðar og bara góðar í fótbolta og eru búnar að sýna og sanna að þær eiga heima í þessari deild. Það er því alls ekki sjálfsagt að koma hingað og sækja þrjú stig.“ Sagði Sandra María Jessen sem einu sinni sem oftar reyndist hetja Þórs/KA er hún skoraði sigurmarkið í 2-1 sigri Akureyringa á Víkingi í Víkinni er liðin mættust í Bestu deild kvenna.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 Þór/KA
Lið Þórs/KA lenti undir í fyrri hálfleik þegar Shaina Faiena Ashouri kom Víkingum yfir eftir aðeins fimm mínútna leik. Sandra María og liðsfélagar hennar bitu þó í skjaldarrendur við mótlætið, sýndu karakter og höfðu snúið leiknum sér í vil er flautað var til hálfleiks.
„Ég held að við höfum verið kannski pínu stressaðar þegar flautað var til leiks og ekki alveg nógu tilbúnar. En við stöppum í okkur stálinu og komum til baka sterkar, sýnum karakter og gott hugarfar og náum tveimur mörkum inn.“
Þau tíðindi gerðust í leiknum að lið Þórs/KA skoraði mark án þess að Sandra María sjálf sæi um að setja boltann í netið þó hún hafi vissulega átt stoðsendingu á Ísfold Marý Sigtryggsdóttur er Þór/KA jafnaði metin í 1-1 á 16.mínútu leiksins. Ánægjulegt fyrir Söndru Maríu að vera ekki lengur ein á lista yfir markaskorara liðsins?
„Það er gaman að fá ný nöfn í þetta. Fyrir okkur skiptir samt engu máli hver það er sem skorar þessi mörk. Það er bara að við fáum þessi mörk og þessi stig og þá erum við ánægðar.“
Sagði Sandra María en allt viðtalið við hana má sjá hér að ofan
Athugasemdir