Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
banner
   þri 14. ágúst 2018 11:15
Magnús Már Einarsson
Þrenna Tryggva: Tveir risar skíta upp á bak
Þrenna Tryggva!
Þrenna Tryggva!
Mynd: Fótbolti.net
KR og FH fá það óþvegið hjá Tryggva.
KR og FH fá það óþvegið hjá Tryggva.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net, skoraði margar þrennur á ferlinum og í sumar er hann með þrennuna eftir hverja umferð í Pepsi-deildinni. Þar tekur Tryggvi fyrir þrjú málefni sem brenna á honum.

Hér að neðan má sjá uppgjör Tryggva eftir sextándu umferðina.



Hræðilegt að sjá FH og KR
Það er hræðilegt að sjá tvo risa á Íslandi, FH og KR, vera í raun að skíta upp á bak. Þetta eru félög sem fengu bæði til sín mjög stórt nafn til að taka við stýrinu. Báðir heimamenn, Rúnar Kri er KR-ingur og Óli er FH-ingur. Mikið lagt í þetta hvað varðar leikmannakaup, þó öllu meira FH megin. Uppskeran er síðan sú að eftir sextán leiki hafa bæði þessi lið einungis unnið sex leiki af sextán. Þeir gætu endað í kapphlaupi um að rembast inn í Evrópusæti auk þess sem FH er ennþá inni í bikanum en þetta er mikið áhyggjuefni. Bæði lið eru klaufaleg fyrir framan markið og varnarleikurinn og markvarslan, sérstaklega hjá FH, er ekki upp á marga fiska. Það er þungt yfir báðum þessum risum og menn þurfa að fara að líta aðeins í eigin barm og reyna að finna eitthvað út úr þessu. Maður skynjar það hjá áhagendum beggja liða að þetta er varla boðlegt.

Spennandi þriggja hesta kapphlaup
Þetta er algjörlega farið að skýrast á toppnum þar sem er þriggja hesta kapphlaup. Öll liðin náðu sér í þrjá góða punkta í þessari umferð. Við eigum eftir að sjá innbyrðis viðureignir á milli allra þessara liða. Það gæti orðið mjög skemmtilegt að fylgjast með þessum þremur liðum og maður er spenntur að sjá hvernig þetta þróast. Það er gaman að þetta sé ekki eins og í fyrra þegar Valur var búið að stinga af um þetta leyti. Ég hafði áhyggjur af Blikunum varðandi reynsluleysi þar sem þeir hafa lítið verið í toppbaráttu í meistaraflokki þó þeir séu vanir í yngri flokkunum. Þeir eru hins vegar að takast vel á við verkefnið og Gústi Gylfa er að koma vel inn.

Spái ennþá sömu liðum niður
ÍBV vann frábæran sigur gegn FH eftir að hafa tapað Þjóðhátíðarleiknum á móti Fylki. Ég er búinn að afskrifa þá hvað varðar fallsæti eftir að hafa verið smeykur fyrir tímabilið. Þeir hafa náð í punkta hér og þar og ég held að ég geti sagt að þeir séu hólpnir. Mér finnst Víkingur vera að fara í hina áttina og þeir gætu blandast í þetta. Keflavík er fallið og það er agalegt að hafa ekki geta tekið siguröskur eftir neinn leik þegar sextán umferðir eru búnar. Fjölnir og Fylkir eru í smá basli og þetta virðist ætla að vera slagur á milli þeirra og mögulega Víkings um að bjarga sér frá falli í Inkasso. Fyrir mót sagði ég að Keflavík og Fylkir færu niður og hugsanlega ÍBV. Fyrst að ÍBV er hólpið að mínu mati verð ég að halda mér við það sem ég sagði fyrir tímabilið og segja að Fylkir og Keflavík fari niður.

Sjá einnig:
Eldri þrennur Tryggva
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner