Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
banner
   mán 25. desember 2017 14:00
Ívan Guðjón Baldursson
Conte: Mikill munur á að vera leikmaður og þjálfari
Mynd: Getty Images
Antonio Conte, stjóri Chelsea, segir þjálfarana á leikmannaferli sínum hafa mótað sig mikið sem stjóra.

Conte var leikmaður Lecce í sex ár og lék svo fyrir Juventus út ferilinn, eða næstu þrettán ár.

Hjá Juve lék Conte meðal annars undir stjórn Giovanni Trapattoni, Dino Zoff, Carlo Ancelotti og Marcello Lippi.

„Ég var mjög heppinn með þjálfara sem leikmaður. Ég man eftir fyrstu tveimur þjálfurunum mínum hjá Lecce, Eugenio Fascetti og Carlo Mazzone. Þeir voru mikilvægir og hjálpuðu mér að þroskast," sagði Conte.

„Þeir kenndu mér að stundum þarf að nota svipuna til að berja leikmenn áfram og stundum þarf að nota gulrótina. Ég notast við þetta enn í dag, svipuna og gulrótina. Mér finnst betra að nota gulrót en stundum þarf svipuna."

Conte segir stökkið frá því að vera leikmaður og yfir í að vera knattspyrnustjóri afar stórt og erfitt.

„Það er allt annað að vera þjálfari og leikmaður, þetta er risastórt stökk. Þess vegna byrjaði ég á að æfa mig í neðri deildunum áður en ég tók við stórliði. Það eru alltof margir atvinnumenn sem vilja taka stökkið strax."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner