Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 04. júní 2021 08:30
Fótbolti.net
Íþróttafræðinemar í HR rannsaka líkamlegt atgervi fótboltakrakka
Lára og Katrín við líkamlegar og sálfræðilegar mælingar á vegum KSÍ og HR
Lára og Katrín við líkamlegar og sálfræðilegar mælingar á vegum KSÍ og HR
Mynd: HR
„Námið í íþróttavísindum og þjálfun við Háskólann í Reykjavík er mjög skemmtilegt nám sem veitir manni tækifæri til að læra af fremstu sérfræðingum heims á sviði íþróttavísinda. Kennararnir eru frábærir og það ríkir fjölskyldu stemming innan deildarinnar." Þetta segir Katrín Ýr Friðgeirsdóttir sem ásamt Láru Hafliðadóttur vann að stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á líkamlegu atgervi knattspyrnufólks á Íslandi. Um er að ræða samstarfsverkefni milli KSÍ og HR.

Nemendur í meistaranámi í íþróttavísindum og þjálfun við Háskólann í Reykjavík sérhæfa sig í þjálfun keppnis- og afreksíþróttafólks og rannsóknum á sviði íþróttafræði. áhersla. Áhersla er lögð á að tengja rannsóknir við hagnýtingu á vettvangi og námið er ætlað fyrir þjálfara, íþróttakennara og annað fagfólk í íþróttum.

Undanfarin ár hafa verið auglýstar kostaðar meistaranámsstöður í íþróttavísindum og þjálfun, sem veita nemendum tækifæri til þess að vinna náið með íþróttasamböndum. Þetta felur meðal annars í sér að gera rannsóknir á mörgu af okkar besta íþróttafólki og vinna meistarverkefni út frá þeim rannsóknum.

Öllum iðkendum sem fæddir eru 2004 og 2005 var boðin þátttaka í rannsókninni sem náði yfir tveggja ára tímabil. Í heildina tóku 826 krakkar af öllu landinu þátt í rannsókninni sem er talin vera einsdæmi í heiminum.

„Út frá rannsókninni skoðaði ég líkamssmælingar og líkamlegt atgervi leikmanna, stráka og stelpna, eftir leikstöðum og getustigi. Helstu niðurstöðurnar eru þær að munur var á líkamssamsetningu eftir leikstöðum og líkamlegt atgervi útileikmanna var almennt betra en markvarða. Líkamssamsetning var ekki áhrifaþáttur fyrir getustig en líkamlegt atgervi leikmanna á hærri getustigum var betra en leikmanna á lægri getustigum. Loftfirrt þol, hraði stefnubreytinga og loftháð þol voru sterkustu áhrifaþættirnir fyrir getustig leikmanna," segir Lára.

„Námið snerist að miklu leyti um rannsóknina sem við Katrín gerðum í samstarfi við KSÍ sem við erum ótrúlega stoltar af. Út frá rannsókninni okkar skoðaði ég mun á elite og non-elite leikmönnunum með tilliti til líkamsmælinga, líkamlegrar getu og fæðingardagsáhrifa (relative age effect)."

Í grófum dráttum þá sýndu niðurstöðurnar að elite leikmenn ná betri árangri í líkamlegum prófum og að sérstaklega sé hægt að notast við Yo-Yo IE2 og Illinois agility prófin til þess að aðgreina leikmenn með tilliti til getustigs. Þá benda niðurstöðurnar einnig til þess að fæðingardagsáhrif séu til staðar hjá 16 ára knattspyrnuiðkendum á Íslandi, sem Láru finnst ástæða til að veita athygli og skoða nánar.

„Ég hvet alla sem hafa áhuga á íþróttum til að kynna sér námið í HR. Það er ótrúlega mikið af flottum rannsóknum og verkefnum í gangi í HR sem geta opnað spennandi dyr fyrir réttu aðilana. Ég hvet líka þá sem hafa ákveðin verkefni í huga til að sýna frumkvæði og sækjast eftir þeim, það er aldrei að vita nema draumaverkefnið gæti orðið að veruleika innan HR," segir Lára að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner