Árni Freyr Guðnason - ÍR
„Tímabilið leggst vel í okkur. Undirbúningurinn hefur verið góður og góður stígandi í liðinu. Spáin kemur mér ekkert á óvart, það er auðveldast að spá liðunum sem komu upp aftur niður þannig það er bara okkar að gera betur en spáin segir til um," segir Árni Freyr Guðnason, þjálfari ÍR, í samtali við Fótbolta.net.
ÍR er spáð næst neðsta sæti Lengjudeildarinnar í spá fyrirliða og þjálfara en þetta var opinberað núna áðan.
ÍR er spáð næst neðsta sæti Lengjudeildarinnar í spá fyrirliða og þjálfara en þetta var opinberað núna áðan.
„Veturinn hefur verið góður. Fín úrslit og frammistaðan heilt yfir góð," segir Árni en lið ÍR lék vel í Lengjubikarnum og vann þar meðal annars sigra gegn Fram og Fylki.
„Það hefur ekki komið mikið á óvart að sigra leiki í janúar og febrúar þegar liðin eru á misjöfnum stað, ungir leikmenn að spila og þungar æfingar þannig að úrslitin þar segja ekki alla söguna en við erum heilt yfir sáttir við frammistöðuna í flestum leikjum."
Okkar starf að hjálpa þeim í þeirri vegferð
Það hafa ekki verið rosalega miklar breytingar á leikmannahópi ÍR fyrir komandi tímabil.
„Við tókum þá ákvörðun að hrúga ekki inn fullt af leikmönnum. Þetta er hópurinn sem fór upp í fyrra að undanskildum Ásgeiri Berki sem er hættur. VIð höfum bætt aðeins við okkur og það er okkar sýn að leikmenn þurfi að stíga upp í verkefni og það er okkar starf sem þjálfara að hjálpa þeim í þeirri vegferð. Það hefur gengið vel og við Jói höfum fulla trú á þessum hóp," segir Árni.
Á morgun spilar liðið við KA í Mjólkurbikarnum og fær þá gott próf fyrir fyrsta leik í deild.
„Eins og ég sagði áðan þá eru vetrarleikirnir eitt og svo er alvöru test framundan. Við spiluðum við KV í fyrstu umferð í bikarnum, lið sem var í sömu deild og við í fyrra þótt hlutskiptin voru ólík. Það var mikilll munur á liðunum í leiknum og fullorðins frammistaða í þeim leik. KA eru í smá brekku í Bestu deildinni og þetta verður hörkuleikur. Það er flott að fá leik við lið í Bestu deildinni sem skiptir máli stuttu fyrir mót," segir Árni.
ÍR á ekki að vera neðar
Þjálfari Breiðhyltinga býst við jafnri og spennandi Lengjudeild í sumar.
„Ég held að þetta verði jöfn og spennandi deild, ég sé ekki í fljótu bragði neitt lið sem er að fara að stinga af og ekkert lið sem verður í miklum vandræðum. Ég hef séð flestöll liðin spila og ég er handviss að við getum unnið þau öll. Það þarf margt að ganga upp og við erum klárir í slaginn," segir Árni.
„Markmiðin eru vissulega innanhúss hjá okkur en það er okkar stefna að ÍR sé klúbbur sem á ekki að vera neðar en Lengjudeild. Við förum í alla leiki til þess að sigra og ég held að það sé þannig hjá öllum liðum."
En hvaða skilaboð hefur Árni til ÍR-inga fyrir sumarið?
„Er ekki týpískt að hvetja alla til að mæta á völlinn og fylgjast með ungu og spennandi ÍR liði í sumar? Við þurfum á okkar fólki að halda og ég þekki það sjálfur að þegar Ghetto Hooligans mæta í brekkuna þá verða oft læti og mikil stemming. Þetta er flott deild og mikið af ungum og spennandi leikmönnum sem eiga eftir að springa út og spila á hærra leveli eftir einhvern tíma," sagði Árni að lokum.
Athugasemdir