fim 25.apr 2024 19:00 Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét |
|
Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 9. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Gróttumönnum er spáð níunda sæti deildarinnar en það gerðist líka 2019 þegar liðið fór upp í Bestu deildina.
Pétur Theodór Árnason er frábær sóknarmaður þegar hann er heill heilsu.
Mynd/Fótbolti.net - Hulda Margrét
Tómas Orri Róbertsson er spennandi leikmaður sem er á láni frá Breiðabliki.
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir/Stein Jøran Sanden
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Grótta, 83 stig
10. Njarðvík, 68 stig
11. ÍR, 66 stig
12. Dalvík/Reynir, 23 stig
9. Grótta
Grótta endaði í þriðja sæti sumarið 2022 sem var fyrsta tímabil liðsins undir stjórn Englendingsins Chris Brazell en síðasta tímabil var aðeins erfiðara og endaði Grótta þá í níunda sæti Lengjudeildarinnar. Það hefur verið talað um „Gróttuleiðina" frá því að Óskar Hrafn Þorvaldsson stýrði liðinu með mögnuðum árangri tímabilin 2018 og 2019. Sú leið gengur að mestu út á að knattspyrnudeild Gróttu búi að framúrskarandi yngri flokka starfi og meistaraflokki sem sé að mestu leyti skipaður leikmönnum uppöldum í félaginu. Grótta hefur mótað liðið sitt að mestu út frá ungum og uppöldum leikmönnum og hefur það gengið vel á síðustu árum.
Þjálfarinn: Chris Brazell er að fara inn í sitt þriðja tímabil sem aðalþjálfari Gróttu. Hann var orðaður við Fram eftir síðustu leiktíð en ákvað að halda áfram í verkefninu á Seltjarnarnesi. Hann er mjög efnilegur þjálfari sem var áður aðstoðarþjálfari liðsins og þjálfari yngri flokka Gróttu. Hann var í akademíunni hjá Norwich á sínum tíma en hefur verið hjá Gróttu undanfarin ár og fer gott orð af honum innan veggja félagsins. Brazell á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í þessu fagi.
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er sérfræðingur Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina. Hann fer yfir liðin; þeirra styrkleika, veikleika og fleira. Í fyrra var hann aðstoðarþjálfari Ægis í Lengjudeildinni og þekkir hann því hana býsna vel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Már Borgarsson.
Styrkleikar: Halda áfram sinni Chris Brazell vegferð og það er stöðugleiki í því. Þeir fá inn Pétur Theodór, Kristófer Melsted og Tómas Orra Róbertsson rétt fyrir gluggalok sem styrkir þá mikið og þeirra sóknarleik. Pétur á að geta skorað 20 mörk í Lengjudeildinni ef hann er í góðu standi.
Veikleikar: Hafa misst Tómas Johannessen sem var potturinn og pannan í leik Gróttumanna í fyrra. Það er spurning hvernig þeir spjara sig án hans í sumar og hvort það verði eins mikið flæði í sóknarleiknum þegar hann er farinn.
Lykilmenn:
Aron Bjarki Jósepsson - Lang reynslumesti leikmaður liðsins, virkilega góður hafsent í Lengjudeildina og stjórnar vörninni eins og sannur leiðtogi.
Kristófer Orri Pétursson - Leikstjórnandi Gróttumanna, virkilega skemmtilegur leikmaður með frábæra vinstri fót, lætur sóknarleik Gróttumanna tikka og er maðurinn sem mun finna Pétur Theodór í teignum úr öllum mögulegum stöðum, stór orð en Kristófer er Kevin De Bruyne þeirra Gróttumanna.
Pétur Theodór Árnason - Einn besti framherji deildarinnar og á að skora mörkin, ekki flóknara en það.
Fylgist með: Tómas Orri Róbertsson, tvítugur lánsmaður frá Blikum, virkilega góður og spennandi miðjumaður sem getur þó líka leyst kantstöðurnar eins og hann gerði fyrir Grindavík í fyrra. En ég kalla eftir því að hann spili á miðjunni, takk.
Komnir:
Alex Bergmann Arnarsson frá Njarðvík
Damian Timan frá Hollandi
Eirik Brennhaugen frá Noregi
Kristján Oddur Kristjánsson frá Val
Valdimar Daði Sævarsson frá Þór
Ólafur Karel Eiríksson frá Haukum (var á láni)
Kristófer Leví Sigtryggsson frá KFG (var á láni)
Kári Eydal frá KV (var á láni)
Ívan Óli Santos frá ÍR (var á láni)
Hannes Ísberg Gunnarsson frá KV (var á láni)
Gunnar Hrafn Pálsson frá KV (var á láni)
Pétur Theódór Árnason frá Breiðabliki
Tómas Orri Róbertsson frá Breiðabliki (á láni)
Farnir:
Arnar Númi Gíslason í Fylki (var á láni frá Breiðabliki)
Gunnar Jónas Hauksson í Vestra
Tómas Johannessen til AZ Alkmaar
Pétur Theódór Árnason (var á láni frá Breiðabliki)
Sigurður Steinar Björnsson í Þrótt R. (var á láni frá Víkingi R.)
Dómur Badda fyrir gluggann: 8
Pétur, Tómas, Valdimar Daði, erlendir leikmenn, flottur gluggi hjá Gróttumönnum.
Fyrstu þrír leikir Gróttu:
3. maí, Afturelding - Grótta (Malbikstöðin að Varmá)
10. maí, Grótta - Keflavík (Vivaldivöllurinn)
18. maí, Grindavík - Grótta (Stakkavíkurvöllur-Safamýri)
Í besta og versta falli að mati Badda: Í besta falli sjötta sæti og í versta falli lenda þeir í ellefta sæti.