Chris Brazell - Grótta
„Það er bara sanngjörn spá. Við enduðum í níunda sæti í fyrra, höfum ekki úr miklum fjármunum að spila og höfum verið að byggja upp nýtt lið síðustu tvö ár," segir Chris Brazell, þjálfari Gróttu, við Fótbolta.net.
Gróttu er spáð níunda sæti Lengjudeildarinnar í sumar en eins og Chris nefnir, þá endaði Grótta í því sæti deildarinnar í fyrra.
Gróttu er spáð níunda sæti Lengjudeildarinnar í sumar en eins og Chris nefnir, þá endaði Grótta í því sæti deildarinnar í fyrra.
„Við erum raunsæir og þurfum að byrja á því að vinna í botnbaráttunni áður en við horfum lengra."
Síðasta tímabil mikil vonbrigði
Grótta endaði í þriðja sæti sumarið 2022 sem var fyrsta tímabil liðsins undir stjórn Englendingsins unga en síðasta tímabil var aðeins erfiðara.
„Síðasta tímabil var mikil vonbrigði fyrir mig persónulega. Við hefðum getað byggt upp betra lið og ég þjálfað mikið betur. Ég tók því illa að liðinu hafi mistekist að bæta sig á milli ára sem kristallaðist meðal annars í frekar heimskulegum viðtölum eftir leiki," segir Chris.
„En þegar litið er á stóru myndina var margt jákvætt. Við töpuðum færri leikjum en 2022, seldum annan uppalinn leikmann í atvinnumennsku og einn þjálfari úr teyminu fékk tækifæri til að starfa í efstu deild. Á sama tíma styrktust yngri flokkarnir, kvennaliðið átti frábært tímabil og við héldum áfram að styrkja innviði og aðstöðu félagsins."
Strákarnir stóðu saman í gegnumþað
Hann segir að undirbúningstímabilið í vetur hafi verið strembið en félagið hafi samt sem áður tekið stór skref.
„Það var strembið en strákarnir stóðu saman í gegnum það. Kristófer Orri, hinir eldri leikmennirnir ásamt Dom, Hilmari, Viktori og Valtý í þjálfarateyminu eiga sérstakt hrós skilið fyrir að leiða hópinn áfram," segir Chris.
„Grótta steig líka afar mikilvægt skref í vetur þegar Magnús Örn (Helgason) var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu."
Nokkrar breytingar hafa verið á hópnum í vetur og er Chris ánægður með stöðuna.
„Þetta er þéttur og góður hópur sem er drifinn áfram af kjarna uppalinna Gróttumanna," segir Chris. „Nýju leikmennirnir Damian, Valdi, Eirik, Alex, Kristán og Tómas Orri bæta miklu við þann kjarna ásamt auðvitað Arnari Daníel, Tareq og Rafal sem eru að hefja sitt annað eða þriðja tímabil með Gróttu."
„Við erum ekki taldir besta liðið í deildinni, en við erum mjög gott og samheldið lið með sterk einkenni."
Ekki auðvelt að mæta neinu liði
Það má búast við jafnri og spennandi Lengjudeild í sumar.
„Öll liðin hafa góða leikmannahópa og metnaðarfulla þjálfara sem setja stefnuna á umspilið. Það verður ekki auðvelt að mæta neinu liði og vonandi munu mótherjarnir segja það sama um okkur eftir tímabilið," segir Chris en hver eru markmiðin fyrir sumarið?
„Sem félag: Halda áfram að bæta prógrammið í karlaliðinu, kvennaliðinu og yngri flokkunum. Við viljum líka fjölga yngri leikmönnum í meistaraflokki og hjálpa bestu leikmönnunum okkar að skara fram úr og komast á stærra svið."
„Sem lið: Undirbúa okkur vel, leggja okkur alla fram og spila okkar bolta í hverjum einasta leik. Þetta lið á klárlega möguleika en fyrst verðum við að virða það að okkur sé spáð neðarlega, vinna skítverkin og njóta þess að annað fótboltasumar sé að byrja," sagði þessi efnilegi þjálfari að lokum.
Athugasemdir