Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 01. júní 2022 08:40
Ívan Guðjón Baldursson
Özil neitar að yfirgefa Fenerbahce
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Mesut Özil, fyrrum leikmaður Arsenal og þýska landsliðsins, segist ekki ætla að yfirgefa Fenerbahce þrátt fyrir að hafa verið úti í kuldanum síðan í mars.


Özil, sem var að eiga frábært tímabil, reifst við Ismail Kartal þjálfara og hefur ekki fengið að spila síðan. 

Özil var kominn með 8 mörk í 22 deildarleikjum en gengi liðsins versnaði ekki þegar hann var tekinn úr hópnum. Fenerbahce endaði í öðru sæti tyrknesku deildarinnar með 73 stig úr 38 leikjum.

„Ég ætla að ljúka ferlinum hjá Fenerbahce, mínu uppáhaldsfélagi frá því í æsku. Ég uppfyllti draum þegar ég skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við félagið þar sem ég lék launalaust fyrstu sex mánuðina," skrifaði Özil á Twitter.

„Ég mun ekki enda ferilinn hjá neinu öðru félagi. Eina markmið mitt næstu árin verður að gera mitt besta fyrir treyjuna. Þetta er mín lokaákvörðun og er hún mjög skýr.

„Ef stjórnin tekur einhverjar ákvarðanir varðandi mig þá mun ég virða þær og halda mér á tánum. Ég er partur af liði og það eina sem skiptir máli er velgengni Fenerbahce."

Özil gekk í raðir Fenerbahce í janúar í fyrra eftir að hafa verið úti í kuldanum í langan tíma hjá Arsenal. Félaginu tókst ekki að selja Özil sem var á ofursamningi og endaði á að fara á frjálsri sölu.

Özil er 33 ára gamall og skoraði 23 mörk í 92 landsleikjum með Þýskalandi. Hann vann HM 2014 og hefur einnig unnið spænsku deildina með Real Madrid, þýska bikarinn með Werder Bremen og enska bikarinn með Arsenal.


Athugasemdir
banner
banner
banner