Efnilegi varnarmaðurinn Þorri Stefán Þorbjörnsson hefur komið sterkur inn í lið Fram á þessu tímabili. Hann er fæddur árið 2006 en hefur byrjað alla þrjá leikina í Bestu deildinni til þessa og er hluti af sterku varnarliði Framara.
Þorri Stefán er á láni hjá Fram frá Lyngby í Danmörku en hann er uppalinn hjá Frömurum.
„Þorri í vörninni hjá Fram, hann er hjá 2006 módel," sagði Valur Gunnarsson í Innkastinu á dögunum.
Þorri nefbrotnaði í síðasta leik gegn KR. Strax á þriðju mínútu leiksins skall hann á Kyle McLagan liðsfélaga sínum og fékk blóðnasir. Þorri þurfti aðstoð sjúkraþjálfara sem gerði að meiðslum hans og lokaði á blæðinguna.
Fram vann leikinn að lokum 0 - 1 og Þorri spilaði allar 90 mínúturnar.
„Hann nefbrotnaði í byrjun leiks gegn KR og fékk bómul í báðar nasir. Hann nefbrotnaði líka á æfingu með U19 landsliðinu um daginn. Hann ætlaði ekkert að fara á æfingunni. Þetta er einhver alvöru nagli þessi gæi," sagði Sæbjörn Steinke í þættinum.
„Þeir eru að nota unga leikmenn í bland við reynslumeiri. Kyle McLagan er líka geggjaður í Fram," sagði Valur.
Þorri hefur komið skemmtilega inn í þetta og er greinilega hörkuefnilegur og harður af sér.
Athugasemdir