Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   mið 24. apríl 2024 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Höfum sótt aðra í þeirra stað sem við teljum að styrki okkur meira"
Dragan Stojanovic - Dalvík/Reynir
Lengjudeildin
Dragan fær tolleringu hjá leikmönnum Dalvíkur.
Dragan fær tolleringu hjá leikmönnum Dalvíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Dalvíkingum er spáð neðsta sæti Lengjudeildarinnar.
Dalvíkingum er spáð neðsta sæti Lengjudeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Eftir sigur í 2. deild í fyrra.
Eftir sigur í 2. deild í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hvað gera Dalvíkingar í sumar?
Hvað gera Dalvíkingar í sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Sumarið leggst bara vel í okkur á Dalvík. Spáin kemur okkur ekkert á óvart; miðað við Lengubikarleikina og nokkra æfingaleiki í vetur, þá held ég að þetta komi ekkert á óvart," segir Dragan Stojanovic, þjálfari Dalvíkur/Reynis, í samtali við Fótbolta.net. Dalvíkingum er spáð neðsta sæti deildarinnar í sumar en það var opinberað núna áðan.

„Í vetur hefur gengið eins og oft er í fótbolta, upp og niður. Margir leikmenn hjá okkur hafa verið fyrir sunnan í skóla og nokkrir í útlöndum. Þannig að við vorum fáir heima á æfingum. En í heildina hefur bara gengið ágætlega held ég," segir Dragan jafnframt.

Magnað sumar í fyrra
Dalvík lék síðast í næst efstu deild árið 2003 en þá var liðið sameinað með Leiftri og hét liðið Leiftur/Dalvík. Félagið hafnaði í neðsta sæti deildarinnar það árið með ellefu stig. Dalvík hefur verið að flakka á milli 2 og 3. deildar síðastliðin tuttugu ár.

Dalvík/Reynir komst upp úr 3. deild árið 2022 og var spáð sjöunda sæti í 2. deild í fyrra en þeir komu svo gott sem öllum á óvart og unnu deildina.

„Þetta var frábært tímabil í fyrra og mjög gaman að taka þátt í því. Ég myndi segja að lykillinn að þessum árangri hafi verið liðsheildin hjá okkur og auðvitað gæðin í liðinu. Góðir taktískir leikir og gott form. Við eigum frábæra aðstöðu á Dalvík og mjög góða stjórn sem stóð þétt við bakið á okkur. Og svo má ekki gleyma að við eigum frábæra stuðningsmenn á Dalvík sem fylgdu okkur líka í útileiki og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur," segir Dragan.

Töluverðar breytingar
Það hafa verið nokkuð miklar breytingar á leikmannahópnum fyrir komandi leiktíð. Nýir erlendir leikmenn hafa bæst í hópinn og svo ungir íslenskir strákar sem verður fróðlegt að fylgjast með í þessari deild.

„Það hafa verið töluverðar breytingar á leikmannahópnum hjá okkur. Nokkrir útlenskir leikmenn sem voru hjá okkur í fyrra koma ekki á þessu ári. Og við höfum sótt aðra í þeirra stað sem við teljum að styrki okkur meira. Ég tel að við eigum sterkari hóp núna en í fyrra.," segir Dragan.

Markmiðið að halda sér í deildinni
Dalvíkingar fá gott próf á morgun þegar þeir mæta Aftureldingu - liði sem er einnig í Lengjudeildinni - í Mjólkurbikarnum. Lærisveinar Dragans töpuðu 7-0 gegn Mosfellingum í Lengjubikarnum í vetur og verður fróðlegt að sjá hvernig liðið stendur núna miðað við þá.

„Já, við eigum leik á móti Aftureldingu í bikarnum á fimmtudaginn. Það eru pínu meiðsli í hópnum hjá okkur eins og staðan er en við teljum samt að við getum stillt upp ágætis liði í þessum leik. Það verður gaman að sjá hvernig okkur gengur á móti sterku liði Aftureldingar sem á örugglega eftir að gera góða hluti í sumar," segir Dragan en hann býst við sterkri deild í sumar.

„Ég held að þetta verði mjög sterk deild í sumar. Og mér sýnist að sjö eða átta lið vilji komast upp úr deildinni; það á eftir að gera hana spennandi. En svo líka gæti deildin skipst í tvennt á miðju sumri en það kemur bara í ljós. Okkar markmið er að halda okkur í deildinni, sem ég held að við eigum að gera miðað við gæðin sem eru í liðinu núna."

Að lokum sagði Dragan: „Það er flott að komast í Lengjudeildina. Þar sem er miklu meiri umfjöllun um leiki og sterkari leikir. Og ég vona að við fáum sama stuðning frá okkar stuðningsfólki og gerum saman góða hluti í sumar."
Athugasemdir
banner
banner