Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 01. október 2021 18:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Rosalega sérstakur tími, en við ætlum að elska þennan tíma"
Sindri Kristinn Ólafsson.
Sindri Kristinn Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík hélt sér uppi í Pepsi Max-deildinni og á möguleika á því að fara í bikarúrslit.
Keflavík hélt sér uppi í Pepsi Max-deildinni og á möguleika á því að fara í bikarúrslit.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri í leik gegn KR í sumar.
Sindri í leik gegn KR í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA - Keflavík er í hádeginu á morgun.
ÍA - Keflavík er í hádeginu á morgun.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur, er gífurlega spenntur fyrir leiknum gegn ÍA í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í hádeginu á morgun.

Þessi lið mættust í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar um síðustu helgi. Þá hafði ÍA betur, 3-2 eftir að hafa lent 2-0 undir.

„Ég er orðinn mjög spenntur. Mér líst ótrúlega vel þetta," segir Sindri Kristinn við Fótbolta.net Hann segir að það sé hægt að nota síðasta leik við ÍA sem innblástur í leikinn á morgun.

„Við erum búnir að ræða þetta. Það var mikið af tilfinningum eftir síðasta leik. Við ræddum að ÍA og Keflavík hefðu endað með sama stigafjölda og sömu markatölu, en þeir bara með fleiri skoruð. Það var jarðarför inn í klefa hjá okkur en þjóðhátíð hjá þeim. Við héldum okkur í deildinni og það var stóra markmiðið, þó þessi sjö mínútna frammistaða hafi verið mjög svekkjandi hjá okkur. Við ætlum að reyna að nýta þennan leik sem innblástur."

Ætla að reyna að fækka fyrirgjöfum ÍA
Keflvíkingar fara inn í leikinn á morgun með svipað upplegg og í flestum leikjum liðsins í sumar. Stefnan er samt sett á að gera betur í ákveðnum atriðum leiksins.

„Þetta verður svipað upplegg nema við ætlum að reyna að minnka fyrirgjafirnar sem við fengum á okkur. Þeir áttu 27 eða 28 krossa inn í boxið okkar við þrjá inn í þeirra. Þetta er einn af þeim hlutum sem við ætlum að koma í veg fyrir. Þeir eru með sterka skallamenn inn í teig og við verðum að gera betur. Við erum búnir að fara yfir fullt af hlutum, en uppleggið er áfram svipað."

Auðvitað fögnuðu þeir vel
Sindri var spurður að því hvort að það gæti nýst Keflvíkingum að ÍA hafi haldið sæti sínu og fagnað vel um síðustu helgi. Hvort það hafi áhrif á hugarfar þeirra inn í þennan leik.

„Auðvitað fögnuðu þeir þessu sæti. Aðeins Víkingar máttu fagna meira en þeir. Þetta var rosaleg björgun hjá þeim; að vinna síðustu þrjá eftir að hafa unnið þrjá allt tímabilið á undan. Þeir áttu alveg skilið að fagna og maður hefði gert það sama í þessari stöðu," segir Sindri.

„Ég held að það hjálpi okkur ekki neitt. Þeir eru á flugi. Ég efast um að það hjálpi okkur, nema þeir mæti saddir. En ef ég þekki Skagamenn rétt, þá eru þeir ekkert hættir."

Var á trommunum 2014
Keflavík fór í úrslit fyrir sjö árum síðan, en tapaði þá fyrir KR. Sindri hluti af liðsheildinni það árið, en var upp í stúku í sjálfum úrslitaleiknum. Hann segir að það sé stórt fyrir sjálfan sig að taka þátt í undanúrslitunum.

„Árið 2014 spilaði ég í 16-liða úrslitunum á móti Hamri. Við fórum þá alla leið í úrslitaleikinn. Svo puttabraut liðsfélagi minn, hann Einar Orri, mig á æfingu nokkrum vikum fyrir úrslitin. Ég var bara á trommunum þá. Ég hef verið hluti af liðsheild sem hefur komist þetta langt, en ég hef aldrei spilað í undanúrslitunum sjálfur. Þetta er virkilega stórt fyrir mig."

„Við erum tveir enn í liðinu, ég og Frans. Síðast var liðið búið að vera lengur í efstu deild. Mér finnst spennan jafnmikil fyrir því að komast í úrslit, og það er jafnmikið undir hjá félaginu. Maður finnur fyrir því að fólk er byrjað að vera spennt, og það gerir kröfu á okkur að komast í úrslit til að það geti skemmt sér vel 16. október," segir Sindri og bætir við að leikmannahópurinn sé í góðu standi fyrir leikinn á morgun.

„Ég held að það séu allir heilir nema Rúnar Þór. Kian er líka eitthvað smá tæpur. Annars eru allir aðrir heilir, allavega á æfingu í gær."

Rútuferðir frá Keflavík
Það verður spilað klukkan tólf í hádeginu á morgun. „Þetta er rosalega sérstakur tími, en við ætlum að elska þennan tíma og dýrka að spila klukkan 12," segir Sindri.

Hann býst við góðum stuðningi en það verða rútuferðir frá Keflavík og upp á Skaga.

„Ég býst við slatta af fólki á Akranesi. Við, nokkrir í liðinu, erum búnir að hjálpa Jónasi framkvæmdastjóra að hrúga saman í rútur. Það verða rútuferðir frá Keflavík og það verður góð stemning."

„Það væri gífurlega gott fyrir samfélagið hérna að fara með lið í úrslit. Við erum búnir að tryggja liðið áfram í efstu deild og það er mikil ánægja með það. Það er rosalega sterkt fyrir svona samfélag að fara í úrslitaleik; maður þekkir það úr körfunni. Fólk vill mjög mikið að við förum í úrslit," segir markvörðurinn öflugi. Það ræðst á morgun hvort Keflavík fari í úrslitin eða ekki. ÍA stendur í vegi fyrir þeim.
Athugasemdir
banner
banner
banner