Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 02. maí 2022 15:17
Elvar Geir Magnússon
Senegal þarf að leika án áhorfenda eftir leysigeislana
Mynd: Skjáskot
FIFA hefur sektað fótboltasamband Senegal og skipað landsliði þjóðarinnar til að leika einn leik bak við luktar dyr eftir hegðun stuðningsmanna í leik gegn Egyptalandi í undankeppni HM.

Senegal vann leikinn og tryggði sér sæti á HM í Katar en Egyptaland mun sitja heima þegar mótið fer fram.

Margir hnökrar voru á framkvæmd leiksins, ekki var farið eftir öryggiskröfum, áhorfendur óðu út á völlinn, lauslegum hlutum var kastað, flugeldum skotið upp og leysigeislum var beint að leikmönnum Egyptalands til að valda truflun.

Egyptaland vildi að leikurinn yrði endurtekinn en varð ekki að ósk sinni.

Senegalska fótboltasambandið fær 180 þúsund punda sekt, 23 milljónir íslenskra króna.

Alls tilkynnti FIFA að sex Afríkulandslið myndu fá refsingu vegna slæmrar hegðunar áhorfenda í síðustu leikjum í undankeppni HM.
Athugasemdir
banner