Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 02. júlí 2019 10:51
Magnús Már Einarsson
Gulli Gull klár á sunnudag - Meiðslin trufluðu í fyrra markinu
Gulli fer af velli í leiknum í gær.
Gulli fer af velli í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, segir ekki koma annað til greina en að spila gegn sínum gömlu félögum í HK í næstu umferð Pepsi Max-deildarinnar á sunnudag.

Gunnleifur fór meiddur af velli á 11. mínútu í toppslagnum gegn KR í gær en í upphitun klemmdist taug í bakinu hjá honum. Hlynur Örn Hlöðversson leysti hann af hólmi.

„Ég hef verið að glíma við bakmeiðsli í 15 ár. Ég hef átt það til að læsast í bakinu. Ég er vanur svona bakveseni en það var vont að það skildi gerast á þessum tímapunkti í gær. Ég er alltaf í meðferð og kann að vinna með þetta," sagði Gunnleifur í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson á Vísi í dag.

Gunnleifur segist verða klár í slaginn fyrir leikinn gegn HK á sunnudaginn og hann ætli ekki að missa af grannaslagnum.

„Það kemur ekki til greina. Ég er fíkill í fótbolta og vil aldrei missa af leik. Ekki einu sinni á undirbúningstímabilinu. Hvað þá gegn HK í merkilegum leik þar sem ég vil heiðra minningu vinar míns Bjarka Más Sigvaldasonar."

Kristinn Jónsson skoraði fyrra markið í 2-0 sigri KR í gær en það gerði hann með skoti fyrir utan teig á 8. mínútu. Gunnleifur segir að hann hefði varið skotið ef hann hefði ekki verið að glíma við meiðslin.

„Það er 100 prósent. Ég sá samt þarna að ég yrði að fara af velli. Fá ferskari mann inn. Það var hundleiðinlegt. Ég hef oft getað komið mér í gegnum óþægindi án þess að það bitni á mínum leik en þarna gekk það ekki því miður," sagði Gunnleifur.
Athugasemdir
banner
banner
banner