Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 06. september 2018 16:16
Magnús Már Einarsson
Gísli í Landanum rekinn af bekknum - „Var ekki með nein fúkyrði"
Gísli Einarsson í góðum gír.
Gísli Einarsson í góðum gír.
Mynd: Edda Sif Pálsdóttir
Gísli býður eflaust til veislu ef Skallagrímur fer upp í 3. deild.
Gísli býður eflaust til veislu ef Skallagrímur fer upp í 3. deild.
Mynd: Edda Sif Pálsdóttir
Sjónvarpsmaðurinn góðkunni Gísli Einarsson var rekinn af bekknum hjá Skallagrími þegar liðið gerði 4-4 jafntefli við Ými í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum 4. deildarinnar í gær. Gísli er þekktur af skjám landsmanna fyrir að sjá um þáttinn Landinn á RÚV.


Gísli, sem er stjórnarmaður hjá Skallagrími, var ósáttur með dómgæsluna í leiknum og lét í sér heyra. Hann var hins vegar ekki á leikskýrslu og Gunnþór Steinar Jónsson dómari leiksins bað hann því að víkja af bekknum á Versalavelli í gær.

„Þetta voru nú ekki nema 30 cm sem ég þurfti að færa mig þannig að það var nú ekki stórt," sagði Gísli léttur í bragði þegar Fótbolti.net ræddi við hann í dag.

„Við vorum ekki alveg sáttir við dómgæsluna en ég var ekki með nein fúkyrði. Ég kallaði kannski hátt en ég kallaði ekki neitt ljótt. Dómarinn kom og spurði hvort það væri ekki allt í lagi og ég gat ekki verið að ljúga að honum þannig að ég viðurkenndi það að dómgæslan væri ekki í lagi. Hann var ósáttur við það og bað mig að færa mig. Ég var heldur ekki á leikskýrslu svo þetta var eðlilegt. Ég vona að engum hafi orðið meint af þó að manni hafi hitnað aðeins í hamsi. Ég sagði ekkert ljótt svo ég held að menn hafi alveg sofið í nótt yfir þessu."

„Sjaldan séð önnur eins umskipti"
Skallagrímur vann fyrri leikinn gegn Ými 5-2 en lenti síðan 4-0 undir í gær. Borgnesingar komu til baka á magnaðan hátt í síðari hálfleik þar sem þeir jöfnuðu 4-4. Áður en endurkoman hófst var hins vegar mark dæmt af Skallagrími og það fór ekki vel í skapið á Gísla og öðrum Borgnesingum.

„Það voru nokkur skrýtin atvik á krítískum tíma í leiknum og það leit út eins og menn væru að panta dómgæslu. Við vorum eiginlega búnir að fagna marki þegar línuvörðurinn dæmdi það af. Það voru 2-3 atvik í röð sem voru mjög undarleg en þetta var í lagi að öðru leyti," sagði Gísli sem var hæstánægður með sigurinn hjá Skallagrími.

„Þetta var ótrúlegur leikur því okkar menn voru drullulélegir í fyrri hálfleik. Það var hræðilegt að horfa upp á þetta. Þeir komu af þvílíkum krafti til baka og maður hefur sjaldan séð önnur eins umskipti í einum fótboltaleik."

Brattur fyrir undanúrslitin
Skallagrímur mætir Álftanesi í undanúrslitunum en Reynir Sandgerði og Kórdrengirnir mætast í hinni viðureigninni. Undanúrslitin hefjast á laugardaginn en fleiri lið fara upp úr 4. deildinni í ár vegna fjölgunar í 3. deildinni.

„Þrjú af þessum fjórum liðum fara upp og við ætlum að vera eitt af þeim, það er engin spurning. Það er hugur í mönnum eftir þetta og nú mæta menn einbeittir til leiks strax í fyrri hálfleik í næsta leik á móti Álftanesingum," sagði Gísli brattur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner