Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 16. febrúar 2019 13:35
Ívan Guðjón Baldursson
Ravel Morrison ekki bitur út í Pogba og Lingard
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ravel Morrison þótti ein helsta vonarstjarna Manchester United og enskrar knattspyrnu á sínum tíma. Hann lék lykilhlutverk ásamt Paul Pogba og Jesse Lingard með yngri liðum Rauðu djöflanna og hafði Sir Alex Ferguson sérstaklega miklar mætur á honum.

Morrison glímdi við ýmis vandamál utan vallar og neyddist Ferguson til að selja hann til West Ham árið 2012, þegar Morrison var tvítugur.

Morrison náði sér aldrei á strik hjá Hömrunum og var stöðugt lánaður út. Hann gerði fína hluti á láni hjá QPR en var svo fenginn yfir til Lazio í ítalska boltanum. Honum tókst ekki að skína þar og skipti yfir í sænska boltann til Östersund fyrr í febrúar.

„Ég er ennþá í sambandi við Paul og við Jesse erum góðir vinir. Þeir eru að gera frábæra hluti, ég er ekki týpan í að snúa mér við og hugsa 'Þetta hefði getað verið ég. Þetta ætti að vera ég,'" sagði Morrison í viðtali við Times.

„Hlutir gerast. Þeir eru ánægðir og ég er ánægður fyrir þeirra hönd. Lífið er of stutt fyrir beiskju og neikvæðni."

Morrison var nálægt því að ganga í raðir Rangers í janúar, þar sem Steven Gerrard er við stjórnvölinn.

„Hann er goðsögn í knattspyrnuheiminum en var samt tilbúinn til að setjast niður og spjalla. Við áttum mjög gott spjall. Sumir stjórar af gamla skólanum neituðu að setjast niður með mér þegar umboðsmaðurinn minn hringdi og sögðu 'hann mun ekki passa inn í hópinn hjá okkur'.

„Of margir stjórar segja nei við mér því þeir eru með slæma ímynd af mér útaf hlutum sem gerðust fyrir tíu árum."


Morrison, sem átti 26 ára afmæli í byrjun febrúar, endaði viðtalið á að tala um misheppnaða dvöl sína hjá Lazio.

„Mér leið eins og allir leikmenn Lazio væru bara þarna fyrir sjálfa sig, það var engin liðsheild. Þegar þú ert hjá félaginu og færð ekki spilatíma þá er dvölin mjög einmanaleg. 37/38 ára gamlir leikmenn voru valdir framyfir mig, mér fannst það mjög skrýtið.

„Þetta varð sérstaklega erfitt þegar móðir mín veiktist. Ég bað um að fá að kíkja á hana en félagið vildi ekki leyfa mér það, nema ég kæmi strax aftur daginn eftir. Mér fannst það fáránlegt. Ég hefði skilið þetta ef félagið væri að spila mér eitthvað en ég var hvergi nærri byrjunarliðinu. Mig langaði bara til að gefast upp."

Athugasemdir
banner
banner
banner